Lífið

Safna fyrir brettamerki á netinu

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Hugo með brettin sín úti í snjónum sem svo sannarlega er nóg af.
Hugo með brettin sín úti í snjónum sem svo sannarlega er nóg af. vísir/vilhelm
„Mig langar til þess að gera streetwear-merki þar sem ólíkir hönnuðir geta komið sinni hönnun á framfæri,“ segir Hugo Poge, grafískur hönnuður, sem ásamt Huldu Karlottu Kristjánsdóttur fatahönnuði stofnaði fatamerkið MYNKA.

Merkið sérhæfir sig í snjó- og hjólabrettafatnaði ásamt fylgihlutum. Þau Hulda og Hugo bíða nú eftir að geta fjármagnað framleiðsluna á vörunum á söfnunarsíðunni Karolina Fund, en allri hugmyndavinnu og sýnishornagerð er lokið. „Partur af verkefninu er að vinna með listamönnum og þeir auglýsi í rauninni verk sín á bolunum og brettunum frá okkur,“ segir Hulda.

Þau ætla að auglýsa eftir listamönnum sem vilja taka þátt í verkefninu og velja úr. Hugo, sem er frá Portúgal, þekkir snjó-, hjóla- og brimbrettageirann vel. „Ég hef unnið í þessum bransa í fimmtán ár en ég byrjaði hjá Gordon and Smith sem er elsta merkið í þessu. Síðan þá hef ég unnið hjá K2 og Nikita, en þannig kynntist ég Íslandi og konunni minni sem er íslensk,“ segir hann.

Sjálfur hannaði hann stóran hluta af fyrstu línu MYNKA, þar á meðal þrjú snjóbretti með myndum sem hann tók á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×