Lífið

Skrípasaga hinna fjögurra keisara

Illugi Jökulsson skrifar
Galba
Galba
Matrix, kvikmynd þeirra Wachkowski-systkina frá 1997, notar sér gamla hugmynd sem líklega er upprunalega komin frá René Descartes um að heimurinn sé blekking sem „illur andi“ hafi klambrað upp í kringum okkur til þess eins að leiða okkur á villigötur. Önnur mynd frá svipuðum tíma og byggir á ekki ósvipaðri hugmynd er Dark City eftir Alex Proyas, hún er reyndar miklu skemmtilegri en Matrix, ef mig misminnir ekki. Eins og flestir vita sjálfsagt er útgangspunktur Matrix sá að mannkynið liggi í raun neðanjarðar í dauðadái en viti bornar maskínur hafi tengt okkur saman með köplum til að tappa af okkur rafmagninu sem býr í hverjum kroppi. Og til að hugurinn hafi nóg að starfa og framleiði nóg rafmagn þá hafa vélarnar klastrað saman sýndarheimi sem við erum öll tengd við og teljum okkur lifa í. Mér skilst að færustu vísindamenn hafi fyrir skömmu sest niður og reynt að finna áþreifanlegar sannanir fyrir því að heimsmynd Matrix sé ekki rétt og við búum í rauninni ekki í tölvu. Og skemmst mun vera frá því að segja að það tókst ekki. En ef við lifum í raun og veru öll í ímynduðum tölvuheimi sem einhver „illur andi“ hefur hannað fyrir okkur liggur í augum uppi að öll okkar saga er líka tilbúningur. Og ég get reyndar bent á eina mjög öfluga vísbendingu um einmitt það. Það er svolítill bútur sögunnar, ekki mjög þekktur, en virðist svo kænlega og skemmtilega samansettur að það er erfitt að trúa því að þetta hafi gerst í raun og veru, heldur hljóti einhver gáskafullur og dálítið flippaður höfundur að hafa verið að verki.

Ég á við „ár hinna fjögurra keisara“ í sögu Rómaveldis.

Söguþráðurinn springur í tætlur

Það er árið 68 eftir Krist. Í Rómaveldi ríkir keisarinn Neró, hann er ekki nema rétt rúmlega þrítugur en hefur þó setið á valdastóli í þrettán ár, og búinn að syngja og dansa og sprella margt og mikið, þar á meðal drepa mömmu sína og eina eða tvær eiginkonur. Júlíusarættin sem hann tilheyrir hefur verið við völd í 95 ár og þar er hver silkihúfan upp af annarri: Ágústus, Tíberíus, Caligula, Kládíus og loks Neró sjálfur. Það er orðið þreytandi fyrir höfund sögunnar að taka sífellt nýja og nýja snúninga með þetta hæfileikasnauða hyski, og þar kom um mitt ár 68 að honum blöskraði. Neró hafði verið fjörugur fýr og gaman að láta hann ganga fram af fólki, en hann var í raun mjög takmörkuð persóna og strax byrjaður að endurtaka sig. Það var ekki skemmtileg tilhugsun að þurfa að bjástra með ruglið í honum kannski 50 ár í viðbót.

Otho
Svo höfundurinn tók þá skyndiákvörðun að losa sig við Neró. Burt með hann! Neró fréttir af uppreisn gegn sér og rýkur þá í að svipta sig lífi. Höfundinum þykir þrátt fyrir allt svo vænt um Neró að hann leyfir honum að eiga glæsileg en auðvitað um leið ansi hlægileg andlátsorð: „Hvílíkur listamaður sem deyr með mér!“

Og nú tók við ár hinna fjögurra keisara. Rósemi hafði ríkt að mestu í ríkinu í nærri heila öld, þótt hirðlífið væri vissulegt hættulegt og blóði drifið, en nú sprakk söguþráðurinn í tætlur og fram koma á skammri stundu svo mörg og ólík keisaraefni að það er erfitt að láta ekki hvarfla að sér að meðvitaður höfundur hafi verið að verki. Hinn „illi andi“ mannkynssögunnar!

Fyrstur þessara jólasveina var Galba. Hann hafði verið landstjóri á Spáni og lýsti sig keisara þegar Neró framdi sjálfsmorð og var sestur í hásætið í Róm þegar árið 69 gekk í garð. Galba var sonur dvergvaxins kroppinbaks (eins og honum er lýst í hinum grimmlyndu rómversku heimildum) en var sjálfur svo hermannlegur í fasi og íhugull á svip að allir þóttust vissir um að hann hlyti að vera mikill maður og vitur. Allir voru vissir um að Galba yrði verðugur keisari, skrifaði sagnaritarinn Tacitus – þangað til hann varð keisari. Í kynlífi var hann eini maðurinn í samanlagðri Rómarsögunni sem hneigðist sjálfviljugur til gamalla karla, en nú var hann sjálfur orðinn gamall karl, eða rétt tæplega sjötugur, og hafi hann einhvern tíma haft dómgreind til að bera, þá var hún fokin út í veður og vind. Galba lét dáta sína drepa fjölda manns í Róm sem hann grunaði um andstöðu við sig, en neitaði svo að borga dátunum launin sín; haldiði að það hafi tryggt honum langlífi í starfi?

Onei, umsviflaust var gerð uppreisn gegn Galba, sem þá hafði setið átta mánuði að völdum. Keisararæfillinn var orðinn svo fótafúinn að hann lét bera sig í burðarstól um þröng stræti Rómar gegn uppreisnarmönnum en féll fyrr en varði og hausinn var höggvinn af honum og hafður að háði og spotti, þessi virðulegi haus.



Vitellíus
Næsti svipti sig lífi 

Allt annars konar maður varð nú keisari, Otho hét hann, 37 ára, gamall drykkjubróðir Nerós, og hafði þótt maður sérlega lítilla sanda, heldur pempíulegur allur og óþarflega roðinn viðsmjöri lengstum. Hann byrjaði á því að taka að sér ungpilt sem Neró hafði látið gelda og síðan gengið að eiga, Sporus hét hann, en öllu fleira vann Otho sér ekki til frægðar á þriggja mánaða valdatíð sinni. Þá þurfti hann að bregðast við uppreisn rómversku legíónanna í Germaníu, og eftir að herdeild á hans vegum hafði beðið ósigur í fyrsta bardaganum við uppreisnarmenn steig Otho það óvænta skref að svipta sig lífi til að koma í veg fyrir lengra borgarastríð. „Betra er,“ sagði Otho mönnum sínum, „að einn deyi fyrir alla, en að allir deyi fyrir einn.“

Má það og til sanns vegar færa, en þessi orð og þessi uppákoma voru svo ólík öllu því sem áður var um Otho vitað að ég hef ákveðið að líta á það sem eindregna vísbendingu þess að hér hafi glettinn og uppátækjasamur höfundur verið að véla um mannkynssöguna; svona gerist varla í raun og veru.

Sömuleiðis gæti vart annar en meðvitaður andi hafa töfrað fram næsta keisara þessa viðburðaríka árs, hið skapmilda en akfeita átvagl Vitellíus, hvernig hefði hann getað orðið keisari nema af því einhver var að leika sér? Hersveitirnar í Germaníu gerðu hann að keisara en sjálfur var hann metnaðarlaus með öllu nema á einu sviði – hann krafðist þess að fá fjórar tröllauknar máltíðir á dag og þá átta mánuði sem Vitellíus ríkti hafði rómverski flotinn þann eina starfa að vera á þönum um Miðjarðarhafið að útvega keisaranum framandleg dýr og feit að éta.

Vespasíanus
Loksins „venjulegur“ Rómverji

Höfundur mannkynssögunnar var sannarlega í essinu þetta ár, töfraði upp úr hatti sínum hvern litríka skrípakarlinn á fætur öðrum eins og hann væri að hrista af sér ryk Júlíusarættarinnar og þvo burt storknað blóð hennar. En nú fannst honum líka nóg komið, og loks kom til sögunnar „venjulegur“ Rómverji, keisaralega vaxinn. Herforinginn Vespasíanus hafði verið austur í Palestínu að berja niður uppreisn Gyðinga en fékk nóg af ruglinu í Róm og brunaði vestur með her sinn, en aumingja Vitellíus greip þá til þess ráðs að svelta mömmu sína til bana, því einhver hafði spáð því að hann yrði aðeins þaulsætinn á keisarastóli ef móðir hans væri ekki lengur lífs. En það dugði ekki, Vespasíanus hélt áfram ferð sinni og mundaði vopn sín sem fyrr, þá reyndi Vitellíus að fyrirkoma öllum stjörnuspekingum í von um að þeir hættu að útbreiða ógæfu, en ekki dugði það að heldur. Vitellíus reyndi að lokum að fá að segja af sér en þá var það of seint, hermenn hans sjálfs og múgurinn drógu gríðarmikinn skrokk hans á aftökustað. „Og þó var ég keisari ykkar fyrrum,“ emjaði Vitellíus og var drepinn og skvapmiklum skrokknum varpað sundurskornum í ána Tíber þar sem fitubrákin loddi við lengi.

Árið 69 var enn ekki liðið þegar Vespasíanus var sestur á valdastól og loks komst á ró aftur. Mannkynssagan hafði rasað nóg út í bili. En á þessari fáránlegu skrípasögu allri eru vitaskuld augljós fingraför meðvitaðs höfundar!

Nú? Þið trúið mér ekki? En þá get ég nefnilega hrist fram úr erminni hina endanlegu sönnun. Rétt eins og Wachkowski-systkinin hlutu að fylgja eftir velgengni kvikmyndarinnar Matrix með tveimur framhaldsmyndum, þá gat hinn „illi andi mannkynssögunnar“ ekki stillt sig um að endurtaka trixið með ár hinna fjögurra keisara. Rúmri öld síðar eða árið 193 trommaði hann því upp með „ár hinna fimm keisara“ og árið 238 reyndi hann svo enn að höggva í sama knérunn með „ári hinna sex keisara“. En alveg eins og það var ekkert varið í framhaldsmyndirnar af Matrix, þá voru ár hinna fimm og sex keisara líka ekki annað en daufur endurómur af hinu upprunalega ári 69, og sú halarófa af keisurum sem hinn „illi andi“ hrannaði saman í fljótfærni árin 192 og 238 var ansi fáfengileg og sviplaus miðað við Galba, Otho, Vitellíus og Vespasíanus.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×