Skoðun

Er erlendum fyrirtækjum fært verslunarrými í Leifsstöð á silfurfati?

Aðalheiður Héðinsdóttir skrifar
Þjónusta við ferðamenn er ein mikilvægasta atvinnugrein á Íslandi. Um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fara yfir þrjár milljónir farþega og spáð er mikilli fjölgun. Ferðamannastraumurinn er ný auðlind sem skapar miklar tekjur fyrir þjóðarbúið.

Trúlega er eitt besta verslunarrými á Íslandi í flugstöðinni á Miðnesheiði.

Margvíslegar viðurkenningar eru til vitnis um að rekstraraðilar hafa staðið sig vel. Þrátt fyrir það og nýlegar innréttingar í brottfararsal stendur til að rífa allt niður og fá nýja aðila í flugstöðina.

Isavia efndi í vor til samkeppni um leigurými í flugstöðinni. Í Hörpu var fyrirkomulag keppninnar kynnt og þótti fulltrúum íslenska ríkisins tilhlýðilegt að kynningin færi fram á ensku. Samkeppnislýsingin, tilboð, fylgigögn og formleg samskipti – allt á ensku.

Reglur evrópska efnahagssvæðisins segja að öll tungumál séu jafn rétthá innan EES. Íslenska er ekki undantekning. Að velja ensku veikir samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Ef ekki, þá má með gagnrökum segja að það veiki ekki samkeppnisstöðu erlendra fyrirtækja að tungumál samkeppninnar sé íslenska.

Leynd hvílir yfir ferlinu

Fyrirtæki mínu hefur verið tilkynnt að það sé ekki fyrsti valkostur þegar kemur að samningaviðræðum við Isavia. Ég óskaði eftir upplýsingum um hverjir tóku þátt í samkeppninni, sundurliðun stigagjafar og við hvað var stuðst við stigagjöf.

Svar barst á ensku: Eingöngu stigagjöf Kaffitárs, engar skýringar, enginn samanburður, óskiljanleg samhengislaus stigagjöf.

Ég sætti mig við að verða undir í samkeppni, en ekki að leikreglur í svo mikilvægri keppni séu bæði óskýrar og ógegnsæjar. Leynd skapar tortryggni, ýtir undir tilfinningu um að ekki sé farið að settum reglum og eitthvað þurfi að fela. Trúverðugleika skortir í þessari samkeppni. Jafnvel Samtök iðnaðarins mega ekki sjá samkeppnislýsinguna. Hvað þolir ekki dagsbirtu?

Eftir samtöl við marga sýnist mér að til standi að gera stóran samning við alþjóðlegt stórfyrirtæki sem rekur tæplega þrjú þúsund verslanir og sérhæfir sig í rekstri í flugstöðvum. Frá þessu á ekki segja fyrr en samningar eru undirritaðir. Þá á ekki að gefa skýringar.

Ég tel mikilvægt að fyrirtæki sem stunda rekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar séu íslensk og það sé skammsýni þegar fulltrúar ríkisins halda fram að slíkt skipti engu máli. Alþjóðleg stórfyrirtæki greiða skatta þar sem þeir eru lægstir og það skapar þeim samkeppnisforskot.

Horft framhjá heildarhagsmunum

Íslensk fyrirtæki greiða skatta á Íslandi. Kaffitár framleiðir nánast allar vörur sínar á Íslandi, kaffi jafnt sem kruðerí. Öll hönnun, markaðsefni, vinna iðnaðarmanna, þjónusta er veitt af þeim sem hér búa. Margfeldisáhrifin eru augljós og þessi fyrirtæki greiða skatta á Íslandi.

Í samkeppnislýsingunni er klifað á íslenskum áherslum, ferðamaðurinn á að skynja að hann sé kominn til Íslands og kynnist því besta sem Ísland hefur upp á að bjóða. Að sækjast eftir alþjóðlegu stórfyrirtæki til að koma þessum skilaboðum á framfæri er grátbroslegt. Slíkt þjónar ekki hagsmunum Íslands eða skattgreiðenda. Íslensk fyrirtæki eru fullfær um að koma íslenskum áherslum á framfæri. Ef rétt reynist, er það sóun að færa erlendu stórfyrirtæki á silfurfati þessa verðmætu auðlind sem ferðamaðurinn er. Hvað ef auðlindin væri fiskurinn úr sjónum?




Skoðun

Sjá meira


×