Innlent

Tvöfalt fleiri hringdu í sjálfsvígshugleiðingum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Vitundarvakning og opin umræða um sjálfsvíg í samfélaginu virðist valda því að fleiri leita sér hjálpar og stígi fyrsta skrefið með því að hringja í 1717.
Vitundarvakning og opin umræða um sjálfsvíg í samfélaginu virðist valda því að fleiri leita sér hjálpar og stígi fyrsta skrefið með því að hringja í 1717. vísir/valli
„Við fundum fyrir mikilli aukningu á símtölum vegna sjálfsvíga í sumar, miðað við það sem hefur verið á þessum árstíma,“ segir Hjálmar Karlsson, verkefnastjóri Hjálparsímans 1717.

Frá maí til september á þessu ári hringdu 123 í Hjálparsímann vegna sjálfsvígshugsana. Á sama tíma í fyrra hringdu 61 vegna sjálfsvíga.

Hjálmar segir að flest símtöl komi yfir veturinn, í skammdeginu og í kringum jólin. Nú í sumar hafi aftur á móti orðið ákveðin vitundarvakning í kjölfar sjálfsvígs leikarans góðkunna Robins Williams. Umræðan sem hafi komið í kjölfarið, um vanlíðan sem sést ekki utan frá, hafi náð til margra sem höfðu síðan samband við Hjálparsímann og sögðu í fyrsta skipti frá sjálfsvígshugleiðingum sínum.

Hjálmar segir að í kjölfar andláts Robin Williams hafi Hjálparsíminn farið af stað með herferð um að þrátt fyrir að allt líti vel út á yfirborðinu geti leynst mikill sársauki innra með fólki.
„Þetta er fólk sem hefur það gott utan frá séð, á góða fjölskyldu, vini og fjármálin eru í lagi, en því líður samt ákaflega illa. Eftir dauða Robins Williams fengum við fleiri símtöl frá fólki sem fannst loksins í lagi að viðurkenna og greina frá vanlíðan sinni,“ segir Hjálmar og bætir við að þetta sýni hvernig umræða í samfélaginu um sjálfsvíg geti komið því til leiðar að fleiri leiti sér hjálpar. 

Starfsmenn og sjálfboðaliðar Hjálparsímans veita stuðning og upplýsingar um úrræði sem eru í boði í þjóðfélaginu hverju sinni. Litið er á samtölin sem fyrsta skrefið til að viðurkenna vandann og ræða um hann. 

„Þetta fyrsta skref er svo mikilvægt. Það getur verið fyrsta skrefið í átt frá vandanum. Því fögnum við fleiri símtölum, það er betra en þöggun og ekki endilega vísbending um að fleiri séu með sjálfsvígshugsanir, heldur að fleiri leiti sér hjálpar,“ segir Hjálmar.

Á fjórða tug manna falla fyrir eigin hendi ár hvert 

Á hverju ári fremja 33-39 einstaklingar sjálfsvíg hér á landi. Þar af eru um tveir á ári á aldrinum 15-20 ára. Til samanburðar hafa síðustu fimm ár 7-15 manns látið lífið í umferðarslysum. 

Beint framlag ríkisins til sjálfsvígsforvarna felst í stöðugildi geðhjúkrunarfræðings hjá Landlæknisembættinu. Á Samgöngustofu er starfrækt deild sem sinnir forvarnarstarfi. Að auki fær Samgöngustofa samkvæmt samgönguáætlun 45 milljónir króna á þessu ári sem m.a. er nýtt til gerðar og sýninga á fræðslumyndum og auglýsingum ásamt fræðslu til ungmenna. 

Salbjörg Bjarnadóttir, geðhjúkrunarfræðingur sem sinnir sjálfsvígsforvörnum hjá Landlækni, segir mun fleiri falla fyrir eigin hendi en í slysum og megi þakka lægri dánartíðni í umferðarslysum góðum árangri umferðarforvarna. 

Salbjörg Bjarnadóttir, geðhjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu.vísir/Heiða Helgadóttir
„Forvarnarstarf gegn sjálfsvígum er ekki endilega nægilega sýnilegt og auðvitað mætti það vera sýnilegra. En jú, mun meiri fjármunum er veitt í umferðarforvarnir,“ segir Salbjörg en bætir við að mikilvægt sé að muna að mjög alvarleg slys verði í umferðinni sem ekki eru banaslys.

„En afleiðingarnar eru líka alvarlegar fyrir þann mikla fjölda sem reynir sjálfsvíg og er ekki inn í dánartölum. Auk þess er full kirkja af fólki að baki hvers sjálfsvígs, það gerir 2500 aðstandendur á ári.“

Salbjörg segir forvarnarstarf meðal aðstandenda afar mikilvægt til að koma í veg fyrir að sjálfsvígshætta flytjist milli kynslóða. „Ef óunnin sorg og erfiðar tilfinningar sitja lengi eftir í fólki getur það þróast út í þunglyndi eða kvíða. Þannig geta aðstandendur upplifað sjálfsvígshugsanir í kjölfar andlátsins.“ 

Salbjörg bendir á að þrátt fyrir að bein aðkoma ríkisins að sjálfsvígsforvörnum takmarkist við hennar stöðu sé margt gott fólk að vinna að forvörnum í samfélaginu og ríkið hafi óbeina aðkomu að öðrum verkefnum. Nefnir hún til dæmis presta, geðræktarsamtök, samtökin Nýja dögun fyrir aðstandendur og geðdeild Landspítalans sem sinni þessum málaflokki. 

Nú á miðvikudaginn er alþjóðlegi sjálfsvígsforvarnardagurinn og verður af því tilefni haldin málstofa í Iðnó þar sem sérstaklega verður beint sjónum að aðstandendum og sorgarvinnu eftir sjálfsvíg.


Tengdar fréttir

Þöggunin skaðar

Gleðiefni er að samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) fækkaði sjálfsvígum hér á landi um fimmtung frá aldamótum og fram til ársins 2012. Engu að síður er tíðni sjálfsvíga hér á landi með því hæsta sem gerist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×