Skoðun

Best varðveitta leyndarmálið

Karl Garðarsson og Vilhjálmur Árnason skrifar
Á síðasta ári voru 355 heimilisofbeldismál skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Ætla má að þetta sé aðeins lítill hluti þeirra brota sem eiga sér stað og að þessi mál skipti þúsundum – heimilisofbeldi er nefnilega oft best varðveitta leyndarmál fjölskyldunnar. Umfangið er slíkt að það er full ástæða til að gefa málaflokknum mun meiri athygli en gert hefur verið. Konur eru oftast þolendur heimilisofbeldis, en íslensk könnun sem gerð var árið 2010 leiddi í ljós að um 22% kvenna sögðust hafa verið beittar ofbeldi af maka eða fyrrverandi maka.

Heimilisofbeldi er þjóðarmein. Hugtakið er notað til að lýsa ofbeldi sem konur og karlar verða fyrir af hálfu núverandi eða fyrrverandi maka, hvort sem um er að ræða hjón eða sambýlisfólk. Börn sem búa á heimili geta verið beinir eða óbeinir þolendur heimilisofbeldis. Þetta eru oft mjög erfið mál að eiga við þar sem þau tengjast einkalífi og tengsl milli geranda og þolanda eru oft mjög mikil.

Það leiðir síðan oft til þess að þeir sem verða fyrir slíku ofbeldi eru tregir til að leggja fram kæru og halda áfram með málið í gegnum dómskerfið. Þá er vantrú á að dómskerfið taki í raun á vandamálinu. Oft er fallið frá kæru, enda er viðkomandi oft háður gerandanum, t.d. fjárhagslega. Hótanir um frekara ofbeldi fæla fólk líka frá því að kæra. Slík mál stoppa gjarnan í réttarvörslukerfinu, en aðeins er haldið áfram með þau alvarlegustu.

Oft er gripið til þess ráðs að veita þolendum heimilisofbeldis vernd með nálgunarbanni. Rökin á bak við slíkt bann eru að gerandi á oft greiðan aðgang að þolandanum vegna náinna tengsla á milli þeirra. Ítrekaðar ofsóknir og ofbeldi eru nefnilega ein helsta birtingarmynd heimilisofbeldis, en það vill gjarnan stigmagnast.

Árangursríkt verkefni

Lögreglan á Suðurnesjum og félagsþjónustan hafa staðið fyrir tilraunaverkefninu „Að halda glugganum opnum“ og hefur það skilað miklum árangri. Tilgangur þess er að sporna gegn heimilisofbeldi með því að grípa strax inn í þau mál sem koma upp og freista þess að veita þolandanum þá aðstoð sem hægt er. Vandamálið er hins vegar að kerfið hefur ekki boðið upp á fullnægjandi úrræði til að fylgja þessum málum eftir. Það er ekki nóg að koma þolanda undir læknishendur og setja á nálgunarbann ef frekari úrræði eru ekki fyrir hendi.

Til að bæta úr höfum við ákveðið að leggja fram frumvarp á fyrstu dögum þingsins þar sem lögð er til breyting á almennum hegningarlögum. Þar er gert ráð fyrir sérstöku ákvæði um heimilisofbeldi til að leggja áherslu á alvarleika slíkra brota. Mikilvæg breyting er líka lögð til varðandi nálgunarbann. Í dag getur bara þolandi kært brot á nálgunarbanni, en við leggjum til að lögregla fái einnig slíka heimild. Það mun styrkja stöðu þolenda, sem eru oft viðkvæmir og sýna einkenni meðvirkni þegar kemur að kæru.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, nýskipaður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefur tilkynnt að baráttan gegn heimilisofbeldi verði sett í forgang á næstunni. Það er vel. Vonandi verður innlegg okkar í þá baráttu til góðs.




Skoðun

Sjá meira


×