Innlent

Átelur skort á vilja vegfarenda til aðstoðar

Óli Kristján Ármannsson skrifar
 Með því að draga úr hraða geta ökumenn dregið úr líkum á að bílar þeirra kastist til í vindhviðum.
Með því að draga úr hraða geta ökumenn dregið úr líkum á að bílar þeirra kastist til í vindhviðum. Fréttablaðið/Vilhelm

Mjög alvarlegt er ef almenningur sýnir ekki vilja til aðstoðar í neyðartilfellum, að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar frá því í byrjun mánaðarins um banaslys sem varð á þjóðvegi eitt í Norðurárdal fyrsta mars á síðasta ári.

Ökumaður missti vald á jeppabifreið í vindhviðu og tólf ára drengur sem var farþegi í aftursæti lét lífið.

Fram kemur að vindhviður hafi numið 20 metrum á sekúndu og vegur hafi verið blautur. Pilturinn, sem var í bílbelti, svaf í aftursætinu þegar slysið átti sér stað.

Annar farþegi í bílnum stóð við veginn eftir veltuna og gaf merki um aðstoð en nokkrir vegfarendur óku samt fram hjá slysstaðnum án þess að stöðva eða bjóða fram aðstoð.

„Þegar alvarleg slys eiga sér stað eru almennir vegfarendur oft fyrstir til aðstoðar og aðhlynningar á vettvangi. Almenn kunnátta í skyndihjálp getur þá reynst dýrmæt, meðan beðið er eftir lögreglu, sjúkraflutningamönnum og læknum,“ segir í skýrslu nefndarinnar.

Fjölmörg dæmi séu um að aðhlynning vegfarenda fyrstu mínútur eftir slys, hafi skipt sköpum.

Auka þarf fræðslu
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur frá árinu 1998 rannsakað átta banaslys í umferðinni þar sem vindhviða er talin orsakaþáttur. Í slysunum átta létust tíu manns.

Í skýrslu um banaslys sem varð við Silfrastaði í mars í fyrra ítrekar nefndin fyrri ábendingu um að auka þurfi fræðslu í ökunámi og í áróðri til almennings um áhrif færðar, vinds og vindhviða á stöðugleika ökutækja.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira