Innlent

„Hætt að skammast mín fyrir mömmu“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Lilja er í fæðingarorlofi og tók hún og sex mánaða dóttir hennar á móti blaðamanni á heimili þeirra í Hlíðunum. Lilja starfar annars sem sérkennari og deildarstjóri á leikskóla og vinnur að mastersritgerð sinni í fötlunarfræðum sem fjallar um börn seinfærra foreldra.
Lilja er í fæðingarorlofi og tók hún og sex mánaða dóttir hennar á móti blaðamanni á heimili þeirra í Hlíðunum. Lilja starfar annars sem sérkennari og deildarstjóri á leikskóla og vinnur að mastersritgerð sinni í fötlunarfræðum sem fjallar um börn seinfærra foreldra. vísir/arnþór
Lilja ólst upp í Keflavík hjá foreldrum sínum og þremur systkinum. Pabbi hennar vann þrettán tíma á dag en mamma hennar sá mestmegnis um heimilið og börnin fjögur.

Heimilislífið var ósköp venjulegt, mikil umhyggja og hlýja einkenndi fjölskylduna og lífið gekk sinn vanagang. Það var ekki fyrr en Lilja var komin á unglingsaldur að hún áttaði sig á því að mamma hennar væri öðruvísi en aðrar mæður.

„Mamma er með þroskaskerðingu og telst því til seinfærra foreldra. Hún getur stundum átt erfitt með að skilja mann en þá þarf maður bara að orða hlutina öðruvísi. Einnig gat hún lítið aðstoðað með heimanámið eða flókin vandamál á unglingsárunum. En það var sko nóg af knúsi á mínu heimili.“

„Mamma þín er skrýtin“

Lilja segir að hún hafi fundið mun meira fyrir fátæktinni sem fylgdi félagslegri stöðu móður hennar. Hún fékk eingöngu tímabundna atvinnu af og til í gegnum Vinnumálastofnun og þá var um láglaunastörf að ræða. Lengsti starfsferillinn var þegar hún pakkaði inn heyrnartólum fyrir flugfélögin. 

„Svo fékk maður að heyra það frá umhverfinu að það væri ekki í lagi með mömmu. Krakkar kölluðu á eftir mér að mamma væri skrýtin, meira að segja fyrir framan foreldra sína sem tóku ekkert í taumana. Einn kennari í skólanum kom alltaf fram við mig eins og ég væri líka greindarskert. Hann hafði verið kennari mömmu og þekkti hana vel. Þar af leiðandi gerði hann engar kröfur til mín í náminu og ég þurfti aldrei að skila verkefnum eða svara spurningum í tímum hjá honum. Ég var með mjög fínar einkunnir í skóla en í þessu eina fagi var ég, eðli málsins samkvæmt, alltaf með lélegar einkunnir.“

Dröfn Sigurvinsdóttir, móðir Lilju, var 25 ára þegar hún átti hana. Svo bættust þrjú börn í hópinn á næstu sjö árum.
 Systkinin send í fóstur

Lilja var 16 ára þegar foreldrar hennar skildu. Í kjölfarið fóru yngri systkini hennar í fóstur því að móðir hennar var ekki talin geta verið ein með fjögur börn. 

„Mamma mætti miklu mótlæti frá félagsþjónustunni og systkinum sínum. Um leið og fólkið í kringum þig missir trúna á þér þá minnkar metnaðurinn sjálfkrafa og mamma gafst upp. Það að senda systkini mín í fóstur var strax fyrsta úrræðið og ekkert annað kom til greina. Tvö systkini mín fóru sátt í fóstur og því var það kannski rétta leiðin fyrir þau. En yngsta systir mín er enn að vinna úr þessari reynslu enda er hún mikil mömmustelpa og vildi bara búa heima hjá henni.“

Tók systur sína í fóstur

Yngsta systir Lilju greindist með sjúkdóm á unglingsárunum sem móðir þeirra hafði ekki skilning á og átti erfitt með að höndla. Lilja segir að með miklum stuðningi hefði þó vel verið hægt að aðstoða móður hennar við að hafa hana hjá sér. Yngsta systirin var fimmtán ára gömul þegar hún fékk að fara í fóstur til Lilju og hún býr enn hjá henni í dag. 

„Ég fékk greitt fyrir að vera með hana í fóstri. Fósturvistun kostar samfélagið okkar mjög mikið og ég skil ekki af hverju fjármagnið er ekki notað til að veita foreldrunum stuðning til að vera með börnin sjálf. Þrjú börn mömmu voru sett í fóstur, sú summa sem það kostaði hefði getað breytt gífurlega miklu í okkar lífi í formi félagslegs og fjárhagslegs stuðnings.“

Dröfn er afar stolt af Sigurbjörgu Sæmundsen, litla ömmubarninu, og er búin að prjóna heil ósköp á litlu dömuna.
Skilningsleysi fagaðila

Lilja segir fordóma og skilningsleysi samfélagsins gagnvart seinfærum foreldrum birtast þarna. Hún hefur oft orðið vitni að þekkingarleysi fagfólks á getu seinfærra foreldra til uppeldis.

Seinfærir foreldrar eins og aðrir foreldrar eru stundum ráðalausir í nýju hlutverki í lífinu. Aðrir eiga aftur á móti auðveldara með að leita sér hjálpar og hafa möguleika á að sækja sér þekkingu eftir eigin leiðum. 

„Sumir seinfærir foreldrar þora ekki að leita sér hjálpar hjá félagsþjónustunni af ótta við að börnin verði tekin af þeim. Það er skiljanlegt því það er oft fyrsta og eina úrræðið þar sem kerfið mistúlkar beiðni um aðstoð sem vangetu. Sem betur fer hafa orðið miklar framfarir síðustu ár en það virðist þó vera ríkjandi hugmynd hjá mörgum sem starfa í félagsþjónustunni að ef um seinfæra foreldra er að ræða þá eigi börnin að fara beint í fóstur. Ég varð vitni að slíku viðhorfi fyrir skömmu.“

Mamma á mikið að gefa 

Lilja er sátt við barnæsku sína í dag og er fegin að hafa ekki verið send í fóstur því það hefði ekki hentað henni. Hún segir að þótt hún geti ekki leitað til mömmu sinnar með ráð um menntun sína eða praktísk atriði eins og húsnæðislán eigi þær mjög gott samband. 

„Það er mikill kærleikur á milli okkar og við erum í góðu sambandi. Hún er óskaplega stolt amma og prjónar eins og brjálæðingur á ömmubarnið. Mamma gaf okkur það sem skiptir mestu máli, ást og umhyggju, og gerir enn. Ég leita bara annað fyrir aðra hluti. Mér finnst kærleikurinn stundum vera tekinn af seinfærum foreldrum, eins og það sé ekki nóg og þeir þurfi að geta kennt börnum sínum allt. Við systkinin fengum risaskammt af knúsi og hlýju, það er eitthvað sem ég bý að.“

Lilja segist hafa fengið gott veganesti og lært mikið á uppeldi sínu.vísir/arnþór
Vildi bara vera venjuleg

Unglingsárin voru þó Lilju erfið en þá vildi hún, eins og svo margir unglingar, bara vera venjuleg og eiga venjulega fjölskyldu. Hún bauð helst ekki vinum sínum heim og reyndi að halda þeim frá fjölskyldunni. Þegar hún kynntist nýju fólki reyndi hún að komast hjá því að tala um mömmu sína en fann að lokum að feluleikurinn var orðinn mikil byrði. 

„Ég reyndi að draga það eins lengi og ég gat að kynna kærastann fyrir mömmu minni. Svo eftir það var það næsta skref, að kynna foreldra hans fyrir foreldrum mínum. En svo tók ég bara ákvörðun um að hætta þessu. Þetta er mamma mín og ég elska hana út af lífinu. Ég er stolt af henni fyrir allt sem hún hefur gert og kennt okkur, og á ekki að fela það. Um leið og maður yfirstígur þetta þá verður allt svo miklu einfaldara og skemmtilegra og um leið finnur maður minna fyrir því. Ég veit núna að ég þarf ekki að skammast mín fyrir mömmu, þvert á móti.“ 

Fékk gott veganesti

Lilja segir að mörgum bregði þegar hún segi umbúðalaust hvernig málum er háttað og að mamma hennar sé þroskaskert. „Margir verða orðlausir og hissa, svo fylgir alltaf hrós um hvað ég sé dugleg. Ætli ég sé ekki frekar dugleg, ég höndla ábyrgð vel og hef góða stjórn á lífi mínu. Það eru nú til verri hlutir til að læra af bernsku sinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×