Skoðun

Ekki kjósa!

Kristín Elfa Guðnadóttir skrifar
…nema vera hundrað prósent viss um að þú fáir meira vald eftir kosningar.

Af hverju ætti fólk að hafa áhuga á pólitík? Ekki hafa þessi áhuga á því:

1. Kona á miðjum aldri. Í láglaunastarfi allt sitt líf. Heyrir talað um skólamál og orkuveitur. Hvað kemur það henni við? Það er ríka fólkið sem á landið og það mun aldrei breytast.

2. Ungur, barnlaus karl að flosna upp úr námi. Alinn upp af foreldrum sem höfðu engan tíma fyrir hann, það þurfti að vinna svo mikið. Þessi pólitík er drasl. Maður sofnar um leið og þetta opnar munninn.

3. Ekkill á hjúkrunarheimili. Hann var fluttur nauðungarflutningum af því þorpið hans var „óhagkvæmt“. Enginn talar við hann nema á meðan honum er rúllað fram til að sitja fyrir framan sjónvarpið. Ætla pólitíkusarnir að heilsa upp á hann?

4. Einstæð móðir í leiguhúsnæði. Tvö yngri börnin geta ekki verið í leikskólanum, bæturnar duga ekki til. Henni er fokk sama um pólitík, hún hefur aldrei séð neitt af viti koma úr þeirri átt.

5. Forsjárlaus pabbi á fertugsaldri. Á sakaskrá vegna stuldar þegar hann var virkur fíkill. Er hættur í ruglinu en fær ekki stuðning til að fóta sig aftur í samfélaginu. Pólitíkusar hafa engan áhuga á hans högum.

6. Ungir foreldrar. Á leiðinni til Noregs til þess að ala börnin upp langt í burtu frá öfum og ömmum. Þótt þau séu ekki með iðnmenntun hafa þau meiri möguleika á sæmilegu lífi þar en hér. Kjósa? Gleymdu því.

7. Hreyfihömluð móðir unglings. Hefur ekki orku til að vera í þessari 75% vinnu sem þarf til að sækja sér þau fáu úrræði sem kerfið býður. Unglingurinn fær ekki ný föt, farsíma eða spjaldtölvu sem jafngildir félagslegri útskúfun. Kjósa? Til hvers.

Af hverju ætti fólk að kjósa? Ég skal segja ykkur hvers vegna. Ef við notum ekki þennan lýðræðislega rétt, þótt lítill sé, þá tryggjum við endanlega óbreytt ástand. Kjósum fólk sem gefur engan afslátt af valdeflingu og lýðræðisumbótum.

Pólitíkin sem ég gekk til liðs við heitir Píratar. Við skuldbindum okkur til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að færa valdið til þín. Kjóstu!




Skoðun

Sjá meira


×