Innlent

Lögsækir borgina vegna brota á réttindum dótturinnar

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Salbjörg Ósk Atladóttir og Atli Lýðsson berjast fyrir því að hún fái að búa heima hjá sér í eigin íbúð sem er við hliðina á íbúð foreldra hennar, með viðeigandi aðstoð.
Salbjörg Ósk Atladóttir og Atli Lýðsson berjast fyrir því að hún fái að búa heima hjá sér í eigin íbúð sem er við hliðina á íbúð foreldra hennar, með viðeigandi aðstoð. mynd/atli
Atli Lýðsson hefur barist fyrir því í þrjú ár að 18 ára dóttir hans, Salbjörg Ósk Atladóttir, fái þá þjónustu sem hún þarf til að búa á eigin heimili. Hann segir að brotið sé á réttindum hennar og því ætli hann með málið fyrir dómstóla.

Salbjörg er fötluð og þarf mikla aðstoð við daglegar athafnir. Hún er með beingreiðslusamning við borgina þannig að hún geti búið í sinni eigin íbúð aðra hverja viku, hina vikuna þarf hún aftur á móti að fara í skammtímavistun sem raskar lífi hennar og frelsi. Atli segir að með sjálfstæðri búsetu hafi Salbjörg eflst mikið sem einstaklingur og njóti þess að vera gerandi í eigin lífi. Því vilji hún og foreldrar hennar að hún fái alltaf að búa í íbúð sinni í stað þess að flakka á milli heimilis og stofnunar.

„Allir fagaðilar sem þekkja Salbjörgu eru á einu máli um að persónuleg og einstaklingsbundin þjónusta henti henni mjög vel. Hún veitir henni svigrúm og sveigjanleika til að vera fullgildur þátttakandi í samfélaginu. En aðra hverja viku er hún háð vaktaskiptum og ferðaþjónustu og hefur ekki sína eigin hluti í kringum sig á sínu eigin heimili. Því höfum við barist fyrir að í stað þess að borgin borgi fyrir hana skammtímavistun tvær vikur í mánuði fái hún það fjármagn sem vistunin kostar borgina og nýti það sjálf til að borga fyrir þá þjónustu sem hún þarf til að geta búið heima, en það hefur ekki gengið,“ segir Atli.

Salbjörg hefur eflst mikið eftir að hún fékk að búa í eigin íbúð og því þykir henni, og foreldrum hennar, miður að hún þurfi að rífa sig upp aðra hvora viku og fara í skammtímavistun.vísir/daníel
Hann segir ekki deilt um þjónustuþörf eða kostnað heldur eingöngu um þjónustuform.

„Það er ekki skortur á fjármagni, enda er þetta ekki dýrari leið, heldur einungis skortur á vilja til að breyta formi þjónustunnar. Leiða má líkur að í raun væri borgin að spara sér umtalsverða fjármuni með því að hafa þetta að hennar óskum, því þá þarf ekki að byggja dýrt húsnæði og reka það. Lausnin er sáraeinföld og allir myndu græða. Ég skil ekki tregðuna.“

Atli segir málatilbúnað borgarstarfsmanna vera í hróplegu ósamræmi við stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum fatlaðra um sjálfstætt líf, jafna þátttöku og réttinn til innihaldsríks lífs.

„Við höfum verið kurteis og farið mjúku leiðina en það hefur ekki skilað fullnægjandi árangri. Nú sjáum við ekki annað úrræði en að fara með málið fyrir dómstóla og sækja rétt dóttur okkar til að lifa lífinu á eigin forsendum en ekki eftir höfði borgarstarfsmanna eða kerfisins.“ 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×