Innlent

Þokast hjá kennurum

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Aðalheiður Steingrímsdóttir
Aðalheiður Steingrímsdóttir
„Það náðist árangur um helgina. Málin þokast en það gengur hægt,“ sagði Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður samninganefndar framhaldsskólakennara.

Þriðja vika verkfalls framhaldsskólakennara er hafin. Nemendur og kennarar sem eru í verkfalli geta búið sig undir að sitja heima næstu daga.

Aðalheiður segir að þó að samninganefnd ríkisins og kennarar séu farin að sjá til lands í nokkrum málum þó séu ýmis stór mál eftir.

Hún segir að samningar um nýtt vinnumat fyrir kennara séu á lokametrunum en það þokist hægt að semja um launaliðinn. Þar beri mikið í milli deilenda. Þá segir hún að samningsforsendur séu ófrágengnar.

„Ég bind vonir við að við klárum í þessari viku en til þess að það náist verða menntamála- og fjármálaráðherra að leggjast á árarnar með samninganefnd ríkisins,“ segir Aðalheiður.

Hún segir að stytting náms til stúdentsprófs hafi verið rædd. Menn ætli að setja ákvæði í kjarasamninginn sem verði virkjaðir ef skólar vilja stytta námið. Stytting náms feli í sér miklar breytingar á námsskipulagi sem hafi áhrif á starfskjör kennara.

„En eftir sem áður stendur upp á menntamálaráðherra að gera grein fyrir hvað hann á við með styttingu náms og pólitíska ábyrgðin er alfarið hans,“ segir Aðalheiður.

Frá því verkfall framhaldsskólakennara hófst hafa deiluaðilar fundað hvern einasta dag, virka jafnt sem helga. Frá þriðja desember til dagsins í dag hafa samninganefndir framhaldsskólakennara og ríkisins hist á 43 fundum.

Hvorki náðist í formann samninganefndar ríkisins við vinnslu fréttarinnar né menntamálaráðherra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×