Lífið

Ítalir og Þjóðverjar vitlausir í Korter

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Sólveig segir næstu bók sína vera sögulega skáldsögu.
Sólveig segir næstu bók sína vera sögulega skáldsögu. Vísir/Stefán
„Það er rosalega gaman að sjá bókina öðlast sitt eigið líf,“ segir rithöfundurinn Sólveig Jónsdóttir. Útgáfufyrirtæki á Ítalíu hefur tryggt sér útgáfuréttinn að fyrstu skáldsögu hennar, Korter. Bókin var einnig gefin út í Þýskalandi í febrúar og að sögn Sólveigar hafa Þjóðverjar tekið vel í Korter sem fjallar um fjórar vinkonur í Reykjavík.

„Þetta er í raun ekki í mínum höndum lengur. Mér finnst þetta ekki vera bókin mín lengur því ég skil ekki einu sinni þýsku. Ég lærði reyndar þýsku í framhaldsskóla en hefði mátt vera aðeins meira vakandi í tímum,“ segir Sólveig í léttum dúr og bætir við að hún tali heldur ekki stakt orð í ítölsku. Hún spáir lítið í þessa útgáfusamninga sjálf.

„Útgáfufyrirtækin eru í þessum málum. Mér er sagt að útgáfufyrirtæki séu eins og beljur – þegar ein byrjar að pissa þá byrja hinar að pissa. Sem sagt þegar eitthvað gengur vel á einum stað er það pikkað upp annars staðar.“

Sólveig vinnur nú að sinni annarri skáldsögu sem kemur úr gerólíkri átt.

„Hún er allt, allt öðruvísi. Þetta er söguleg skáldsaga sem gerist hér heima og á Írlandi þar sem ég bjó einu sinni. Ég er ekki komin með útgáfudagsetningu á hreint en ég ætla að taka mér góðan tíma til að klára hana. Ég vil gera hana vel og vera ánægð með útkomuna. En vonandi lítur hún dagsins ljós áður en langt um líður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×