Skoðun
Dagrún Aðalsteinsdóttir, myndlistarkona og femínisti.

Meira klám fyrir mig takk!

Dagrún Aðalsteinsdóttir skrifar

Mig langar að byrja á að fagna hversu stórt pláss femínísk umræða er farin að taka í fjölmiðlum hér heima og erlendis en finnst þó umræðan hér sorglega einsleit. Femínismi er hugtak sem snýr að því að jafna hlut kynjanna en innan femínismans eru ólíkar skoðanir og hugmyndir um hvernig því verði náð. Á áttunda áratugnum voru mikil átök innan femínismans, oft nefnt kynlífsstríðið en þar urðu átök milli tveggja ólíkra hugmynda þar sem annar hópurinn taldi klám og kynlífsvæðingu hluta af tjáningar- og kynfrelsi á meðan hinn sá það eingöngu sem tæki til kúgunar.

Munum hvaðan við erum að koma í sögulegu samhengi, fyrsta alda femínismans um aldamótin 1900 snerist um kosninga- og eignarrétt, seinni alda femínismans á 6. og 7. áratugnum snerist um frelsi, sjálfsákvörðunarrétt og sjálfræði yfir eigin líkama og lífi. Um aldamótin styttist pilsfaldur kvenna örlítið samhliða kvenréttindabaráttu og mínipilsið varð til samhliða baráttunni á 7. áratugnum. Konur voru að frelsa sig undan eignarhaldi karlmannsins þar sem verðmætamat þeirra hélst í hönd við hreinleikann sem hefur alltaf verið bundinn við skírlífi kvenna. Enn í dag er þetta veruleiki margra kvenna í heiminum.

Kvenréttindabaráttan á 8. áratugnum hélst í hendur við kynlífsbyltinguna og leiðarljósið var tjáningar- og kynfrelsi. Út frá þessari gríðarlegu byltingu sem varð á þessum tíma spretta fram poppdívur eins og Madonna á 9. áratugnum sem ögraði og þrýsti á rammann, ýjaði að hlutum eins og sjálfsfróun sem var áður algjört tabú að konur stunduðu. En konur áttu eingöngu að njóta unaðar undir handleiðslu mannsins og að þær stunduðu eigin kynferðislega ánægju var algjört tabú.

Mér finnst leiðinlegt að sjá lítið gert úr áhrifum þessara poppdíva og með umræðunni er verið að valdsvipta þær og fórnarlambavæða. Sjáum líka konu eins og Beyoncé, en staða litaðra kvenna var enn verri og er það enn víða, það er ekki svo langt í fordóma um að hvítt sé fallegra eða æðra en dökkt hörund.

Núna hefur verið mikið áberandi í umræðunni erlendis að fatahönnuðir séu í auknum mæli að nota litaðar fyrirsætur og af ólíkum kynþáttum í sínum herferðum, sumir jafnvel í fyrsta skipti. Enginn vafi er á að valda- og áhrifamikil poppfígúra eins og Beyoncé spili stóran þátt í þeim breytingum. Hvað er það líka nákvæmlega sem er svona hættulegt og ögrandi við Miley Cyrus, er það kannski að hún er ekki að haga sér eins og góðri „hreinni“ stelpu ber að gera?

Það eru greinilega ennþá veggir sem þarf að brjóta niður ef það er alltaf litið niður á eða gert lítið úr því þegar konur tjá sig kynferðislega og alltaf stillt þannig upp að þær séu að gera sig að fórnarlömbum hins karllæga. Getum við ekki séð tjáningu kvenna á kynvitund sinni sem tjáningu á eigin þrám? Þurfum við alltaf að stilla því upp að þær séu að uppfylla langanir karlmanna? Er það ekki karlæg hugsun?

Er ekki fullkomlega eðlilegt að þetta heilli ungar stúlkur sem eru að uppgötva líkt og strákarnir sína eigin kynvitund og langanir? Viljum við senda þau skilaboð til stelpna að ef þær tjái það þá séu þær sjálfar að velja sér hlutverk fórnarlambsins? Ég vil ekki segja að öll tónlistarmyndbönd séu frábær og með góð skilaboð og auðvitað ættu konur aldrei að sjá sig tilneyddar til að gera út á kynþokka sinn. En við skulum þó passa okkur að fara ekki að gera kynverund kvenna aftur að tabúi og fordæma alla kynferðislega tjáningu.

Rót vandans er enn sú að fleiri konur þurfa að komast til valda og áhrifa á öllum sviðum í poppi, pólitík, klámi, myndlist, stjórnum fyrirtækja og endalaust mætti telja. Langar mig sem konu, kynveru og neytanda að deila með ykkur vandaðri klámsíðu fyrir konur (forthegirls.com) en það er ekki auðvelt að finna klámefni gert fyrir og af konum. En ég mundi glöð vilja sá meira framboð og fjölbreytni þar, því klámið endurspeglar mjög skýrt tvískinnunginn í hinu karllæga samfélagi sem við búum í. Þó að femínistar séu með ólíkar hugmyndir um hvernig jafnréttinu verði náð getum við öll séð að stóra vandamálið er að konur sem eru helmingur jarðarbúa, eru enn með völd á við minnihlutahóp. En gleymum þó ekki frá hverju við erum að hverfa og fögnum því frelsi sem hefur náðst.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.