Körfubolti

Umfjöllun, viðtöl og tölfræði: Fjölnir - ÍR 75-81 | Breiðhyltingar brutu ísinn

Elvar Geir Magnússon í Dalhúsum skrifar
ÍR-ingar unnu í Grafarvoginum.
ÍR-ingar unnu í Grafarvoginum. vísir/vilhelm
Fjölnismenn og ÍR-ingar mættust í Domino's deildinni en fyrir leikinn voru bæði lið án sigurs eftir þrjá leiki. Það var því ljóst að eitthvað þurfti undan að láta í kvöld.

ÍR-ingar voru yfir stærstan hluta leiksins og unnu á endanum verðskuldaðan sigur 75-81 í gríðarlega spennandi leik þar sem úrslitin réðust á lokamínútunni.

Það sást á mikilvægum augnablikum í leiknum að sjálfstraustið í Grafarvogsliðinu er ekki nægilega mikið, það tók of mikið af þriggja stiga skotum í von og óvon. Talað hefur verið um að baráttu hafi vantað hjá liðinu og talaði þjálfarinn sjálfur um það eftir leik, minntist á viljaleysi.

Leikurinn í Grafarvoginum var hörkuskemmtilegur og spennandi, áhorfendur lituðu leikinn skemmtilega og þá sérstaklega góður kjarni úr Breiðholtinu sem söng og skemmti sér. Stigunum tveimur var fagnað af innlifun í leikslok.

Fróðlegt verður að sjá hvernig Breiðhyltingar fylgja þessu eftir en Fjölnismenn þurfa að girða sig í brók og fara að hefja sína stigasöfnun sem fyrst ef ekki á illa að fara.

Matthías Orri: Gerðum hring um þennan leik

„Þetta er einn af leikjunum sem við gerðum hring utan um áður en við byrjuðum tímabilið," sagði Matthías Orri Sigurðarson sem var stigahæstur ÍR-inga í kvöld, var vel vaxandi í leiknum og skilaði frábærum leik.

„Við vissum að þetta væri mikilvægur leikur til að koma okkur frá botninum og það tókst. Þetta var virkilega sterkur sigur. Við vorum ekkert að hitta of vel á tímabili en héldum þeim í 75 stigum sem er rosalega gott. Ég er gríðarlega ánægður með „effortið" og hversu vel leikmenn voru stemmdir eftir að hafa átt frekar dapran leik gegn Njarðvík."

„Þetta var algjörlega sanngjarn sigur. Við vorum að leiða þetta og fengum frábæran stuðning. Það voru 20 brjálaðir Breiðhyltingar að öskra allan tímann. Fyrsu tveir leikir okkar á tímabilinu voru hörkuleikir en í síðasta leik duttum við rosalega niður og þá var andleysi og erfitt að útskýra hvað var í gangi. Við töluðum strax um að rífa okkur í gang."

„Það er léttir eftir þennan leik. Það sást á því hvernig við fögnuðum eftir leik að við vorum gríðarlega ánægðir með þetta. Við eigum Stólana heima í næsta deildarleik og ætlum að taka þann leik og vinna."

Hjalti Þór: Eins og við værum litlu strákarnir

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Fjölnis, hafði þetta að segja eftir leikinn:

„Við erum búnir að vera að taka of mörg þriggja stiga skot í hverjum einasta leik. Við vitum það sjálfir. Fyrir þennan leik lögðum við áherslu á að fara inn en skutum svo bara fyrir utan. Þeir voru fastir fyrir og þá var eins og við værum litlu strákarnir og skjótum fyrir utan," sagði Hjalti.

„Það vantaði grimmd og vilja til að klára þetta. Við erum með marga stráka sem hafa ekki verið að spila í úrvalsdeild en það er ekki þessi munur milli deilda. Þetta er bara körfubolti og menn þurfa ekki að vera svona stressaðir."

„Við þurfum að aga okkur og vera grimmari á æfingum. Við erum með helling af góðum strákum en við þurfum bara að öðlast trú."

Fjölnir-ÍR 75-81 (20-22, 16-23, 18-16, 21-20)



Fjölnir: Arnþór Freyr Guðmundsson 27/5 fráköst, Ólafur Torfason 14/12 fráköst/6 stoðsendingar, Daron Lee Sims 10/4 fráköst, Róbert Sigurðsson 9/4 fráköst/5 stoðsendingar, Garðar Sveinbjörnsson 6, Sindri Már Kárason 4, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 3, Davíð Ingi Bustion 2.



ÍR: Matthías Orri Sigurðarson 25, Kristján Pétur Andrésson 19/10 fráköst, Sveinbjörn Claessen 13/5 fráköst, Christopher Gardingo 12/10 fráköst, Vilhjálmur Theodór Jónsson 8/4 fráköst, Ragnar Örn Bragason 2, Leifur Steinn Arnason 2.

Textalýsing frá leiknum:

LEIK LOKIÐ: FJÖLNIR 75-81 ÍR!! Fyrstu stig ÍR-inga í húsi en Fjölnismenn eru enn stigalausir á botninum. Alvöru leikur sem við fengum í dag. ÍR-ingar betri stærri hluta af leiknum og því skrái ég þessi úrslit sanngjörn. Matthías Orri Sigurðarson stigahæstur hjá ÍR með 24 stig, Kristján Pétur Andrésson með 19. Arnþór Freyr Guðmundsson skoraði 21 stig fyrir Fjölni, Ólafur Torfason 14.

4. leikhluti: 75-79!!! Skot Fjölnismanna klikkar, ÍR-ingar í sókn og fá víti. Fjögurra stiga munur 19,4 sekúndur eftir og leikhlé. Rosaleg spenna í gangi!

4. leikhluti: 75-77 Arnþór Freyr Guðmundsson setur þrist!!!! Innan við mínúta eftir. Fjölnir vinnur boltann aftur!

4. leikhluti: 72-77. 1:11 eftir. ÍR-inga taka leikhlé. Háspenna/lífshætta.

4. leikhluti: 70-77. 1:50 eftir. Fjölnir að setja niður tvö vítaskot. Eru ÍR-ingar að landa sínum fyrstu stigum og skilja Fjölnismenn eftir stigalausa?

4. leikhluti: 69-75. Stuðningsmenn ÍR syngja fyrir Matthías Orra sem hefur vaxið mikið eftir því sem á leikinn hefur liðið. Kominn með 19 stig. Leikhlé í gangi og 2:35 eftir.

4. leikhluti: 67-73. 3:30 eftir af leiknum. Breiðhyltingar halda áfram að vera skrefinu á undan. Virkar meira öryggi yfir þeirra spilamennsku en það má ekki mikið út af bregða. 

4. leikhluti: 63-71. Það var ekkert annað fyrir ÍR-inga en að stíga á bensíngjöfina á ný og það gerðu þeir! Heimamenn taka leikhlé. Flott stemning í húsinu, flott tempó og mikil spenna. Svona viljum við hafa þetta!

4. leikhluti: 63-65. Þarna kom fítonskafli frá heimamönnum! Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson setti flottan þrist. Tveggja stiga munur. Spennan í kofanum er svakaleg!!!

4. leikhluti hafinn: 54-61. Leifur Arnarson stimplar inn sín fyrstu stig með því að skora fyrstu stig fjórða leikhlutans. Sjö stiga munur.

3. leikhluta lokið: Fjölnir 54-61 ÍR. ÍR hefur verið í forystu stærsta hluta leiksins en framundan er spennandi lokafjórðungur.

3. leikhluti: 52-61. Ragnar Örn Bragason gerði vel og rændi boltanum af mikilli baráttu. Brotið á Matthíasi Orra sem setti bæði vítaskotin niður. Þetta leikhlé sem ÍR tók áðan hefur fært aftur betra jafnvægi í spilamennsku Breiðholtsliðsins.



3. leikhluti:
52-57. Leifur Arnarson klúðrar tveimur vítum og Fjölnir refsar í næstu sókn.

3. leikhluti:
48-52. Róbert Sigurðsson með þriggja stiga körfu og munurinn aðeins fjögur stig. ÍR-ingum lýst ekki á blikuna og taka leikhlé þegar rúmar 4 mínútur eru eftir af þriðja fjórðung.

3. leikhluti: 43-50. OK ég bolda þessa færslu! Ef troðslan var góð frá Daron Lee Sims áðan þá var þessi konfekt! Erfitt samt að færa hana i orð svo ég reyni það ekki einu sinni. Garðar Sveinbjörnsson fær líka plús fyrir meistarasendingu.

3. leikhluti: 38-45. Góðan og margblessaðan daginn. Daron Lee Sims var aðeins að minna á sig með einni góðri troðslu. Er þetta að fara að gefa heimamönnum byr undir báða vængi?

3. leikhluti: Jæja seinni hálfleikur er farinn af stað. Ég er búinn að byrgja mig upp af góðu iðnaðarkaffi og tilbúinn í slaginn. ÍR með níu stiga forystu.

Stigahæstir í hálfleik:

Fjölnir: Arnþór Freyr Guðmundsson 14, Ólafur Torfason 10.

ÍR: Kristján Pétur Andrésson 12, Sveinbjörn Claessen 11, Cristopher Gardingo 9.

Hálfleikur: Fjölnir 36-45 ÍR. Breiðhyltingar með nokkuð ljúfa forystu þegar liðin halda inn í búningsklefa. Forysta liðsins gæti þó verið meiri því Ragnar Örn Bragason klúðraði tveimur vítaskotum hérna rétt fyrir hálfleikinn. ÍR vann annan leikhluta með sjö stigum. Förum yfir stigahæstu menn í hálfleiknum.

2. leikhluti: 32-42. Mesti munurinn í leiknum hingað til. Þetta er að falla með ÍR-ingum þessa stundina á meðan sóknir Fjölnis virðast oft á tíðum tilviljanakenndar.

2. leikhluti: 32-38.  Þessi leikur hefur algjörlega verið í járnum hingað til og sveiflast til og frá. Ef þú ert upp í sófa í grenndinni og ert  ekkert að gera mæli ég með því að þú brunir hingað. Þriggja stiga körfurnar að liggja vel núna, sérstaklega hjá ÍR. Kristján Pétur Andrésson setti flottan þrist áðan og er kominn með níu stig alls.

2. leikhluti: 32-30. Áfram heldur stuðið. Sveinbjörn Claessen, Herra ÍR, setti niður einn ansi smekklegan þrist og Ólafur Torfason hjá Fjölni ákvað að vera ekki minni maður og svaraði með þrist hinumegin.

2. leikhluti: Fjölnismenn hafa ákveðið að svara stuðningsmannasveit ÍR með því að kalla út krakka í hverfinu með trommur og lúðra! Er eitthvað meira óþolandi en trommur og lúðrar í íþróttahúsum? Nei ég held ekki. Ef þið vitið um eitthvað megið þið henda á mig uppástungum, @elvargeir á Twitter.

1. leikhluta lokið: Fjölnir 20-22 ÍR. Sveinbjörn Claessen setti tvö stig af vítalínunni áður en Arnþór Freyr Guðmundsson svaraði með laglegri körfu. Arnþór stigahæstur í leiknum með 12 stig eftir fyrsta fjórðung. Þessi botnslagur fer fjörlega af stað. Vonandi helst þessi spenna.

1. leikhluti: 16-19. Christopher Gardingo var að setja eina troðslu svona rétt til að tjúna enn frekar upp stuðningsmannasveit ÍR sem lætur vel í sér heyra í upphafi leiks.

1. leikhluti: 13-12. Þá eru Fjölnismenn búnir að taka forystuna. Ansi kaflaskipt byrjun á þessum leik og liðin skiptast á að eiga spretti.

1. leikhluti: 9-12. ÍR-ingar náðu átta stiga forystu áður en Arnþór Freyr Guðmundsson setti niður laglegan þrist og Daron Lee bætti svo tveimur við strax á eftir.

1. leikhluti: Leikurinn er farinn af stað en fyrstu tvö stigin skoruðu heimamenn.

Fyrir leik: Nonni á karfan.is er mættur í hús og fær sér kleinu í blaðamannastúkunni. Hann spáir því að Fjölnir vinni þennan leik með átta. Ég sem hinn blaðamaðurinn á leiknum ætla því að spá tveimur stigum í Breiðholtið... fjögurra stiga sigur ÍR-inga. Jæja leikurinn að hefjast...

Fyrir leik: Jón Gísli Ström er mættur með vaska sveit stuðningsmanna úr Breiðholtinu í Dalhúsin. Verið er að kynna liðin til leiks. Ekki færri ÍR-ingar en heimamenn, Breiðhyltingar sitja þéttar og láta í sér heyra á meðan Fjölnismenn dreifa sér um stúkuna. Naujjj... þá er hent í ljósashow hérna! Minna má það vera! 

Fyrir leik: Daron Lee Sims er stigahæstur Fjölnismanna fyrir þennan leik með 25 stig að meðaltali en einnig er hann frákastahæstur Grafarvogsliðsins. Matthías Orri Sigurðarson er stigahæstur Breiðhyltinga með 22,7 stig að meðaltali en hann er einnig stoðsendingahæstur í liðinu.

Fyrir leik: Tveir af þremur dómurum leiksins byrjaðir að hita upp. Jón Guðmundsson, Halldor Geir Jensson og Jóhannes Páll Friðriksson sjá um dómgæsluna í kvöld. Hér í Grafarvoginum eru grillaðir hamborgarar fyrir leikinn. Í kringum tíu áhorfendur mættir 20 mín fyrir leik.

Fyrir leik: Það er heil umferð í deildinni í kvöld. Aðrir leikir eru: Kefla­vík - KR, Grinda­vík - Þór Þ, Tinda­stóll - Njarðvík, Hauk­ar - Skalla­grím­ur og Snæ­fell - Stjarn­an.

Fyrir leik: Þessi lið verða að fara að rífa sig í gang enda samanlagt með 0 stig. Ljóst að það mun breytast í kvöld. Fjölnismenn voru talsvert gagnrýndir fyrir slaka vörn og skort á vilja í síðasta leik og eru vafalítið ákveðnir í að sýna aðrar hliðar í kvöld. Liðin eru mætt út á gólf í upphitun á meðan vaskir sjálfboðaliðar sjá um að raða upp auglýsingaskiltum.

Fyrir leik: Í gær bárust fréttir af því að Björg­vin Hafþór Rík­h­arðsson, leikmaður ÍR, spilar ekki næstu mánuði en hann sleit krossband í hné.

Fyrir leik: Halló Grafarvogur! Ég er búinn að koma mér fyrir hér í Dalhúsum þar sem væntanlega verður hart barist í kvöld. Ekki er hægt að gera kröfur um heimsklassa körfubolta í þessum leik eins og taflan sýnir bersýnilega en vonandi fáum við spennandi baráttuleik!




Fleiri fréttir

Sjá meira


×