Körfubolti

Bryndís ekki með Keflavík fyrir áramót

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bryndís býr sig undir að setja boltann í körfuna.
Bryndís býr sig undir að setja boltann í körfuna. Vísir/Valli
Körfuknattleikskonan Bryndís Guðmundsdóttir missir að minnsta kosti af fyrri hluta tímabilsins með Keflavík í Domino's deild kvenna, en hún er á leið í heimsreisu ásamt unnusta sínum. Frá þessu var greint á karfan.is.

„Ég er búin að vera í körfuboltanum frá því ég man eftir mér og mig langar bara aðeins að upplifa eitthvað nýtt,“ sagði Bryndís í samtali við karfan.is.

„Tækifærið gafst núna og ég stökk á það. Svo þarf bara að koma í ljós hvað ég geri þegar ég kem heim.“

Þetta eru vond tíðindi fyrir Keflavíkurliðið, en Bryndís er einn öflugasti leikmaður Domino's deildarinnar.

Bryndís, sem er 26 ára, skoraði 16,2 stig og tók 9,5 fráköst að meðaltali í leik á síðasta tímabili. Hún var auk þess með 19 framlagsstig að meðaltali í leik, en aðeins níu leikmenn voru með fleiri slík að meðaltali í leik.

Bryndís hefur leikið með Keflavík allan sinn feril, fyrir utan tímabilið 2011-12 þegar hún lék með KR.

Hún hefur leikið alla sex landsleiki Íslands á árinu. Bryndís skoraði 7,2 stig og tók 4,5 fráköst að meðaltali í þessum sex leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×