Innlent

Hagaskóli að springa: Heilbrigðiseftirlit stöðvar matseld fyrir nemendur

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ingibjörg segir þörf á nýju húsnæði.
Ingibjörg segir þörf á nýju húsnæði. Mynd/Vísir
„Miðað við óbreytt ástand þá er það alveg ljóst að hvorki Melaskóli né Hagskóli rúmar fleiri nemendur,“ segir Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla, en nú á dögunum kvað heilbrigðiseftirlitið upp úrskurð sinn: Mötuneytið í Hagaskóla er orðið of lítið og því þarf að breyta fyrir næsta skólaár.

Nú eru um tæplega 500 nemendur í skólanum og hafa skólastjórnendur þurft að hagræða mikið til þess að koma þeim fyrir á þægilegan máta og á sama tíma veita fullnægjandi stoðþjónustu. „Ég var á fundi um daginn til þess að ræða almenna stækkun á skólanum,“ útskýrir Ingibjörg. „Bæði af því að bekkjum fer fjölgandi og svo er líka svo margt í stoðþjónustunni sem er að breytast.“ En Hagaskóli er svokallaður skóli án aðgreiningar og leggur mikið upp úr því að hver og einn nemandi fái kennslu við sitt hæfi. „Það er ekki endilega það besta fyrir alla nemendur að vera inni í 24 manna bekk. Það getur verið að það besta fyrir nemanda sé að vera í litlum hópi og þá vantar öll þessi vinnurými.“

Nemendafjöldi mun aukast og mögulega agavandamál með 

Samkvæmt spám Reykjavíkurborgar mun nemendum fjölga á næstu árum. „Húsnæðið ber það ekki,“ segir Ingibjörg. Stefnir allt í að nemendafjöldi verði álíkur þeim sem var hér fyrir hrun þegar um hundrað fleiri nemendur sóttu skólann. „Þá er bara sagt: „Úr því að hér gátu verið hátt í 600 nemendur af hverju getur þú ekki verið með 490?“ en málið er að þá var skólinn sprunginn,“ segir Ingibjörg. Vegna þessa hafi í denn komið upp ýmsar deilur og agabrot hjá nemendum. Á árunum 2007-2008 fór mikið fyrir Hagaskóla í umræðunni vegna síendurtekinna agabrota nemenda. Þetta hefur breyst í skólanum síðustu ár enda tóku skólayfirvöld vandamálið föstum tökum. „En það hjálpaði okkur líka að það fækkaði í skólanum. Það rétti kúrsinn af,“ útskýrir Ingibjörg. „En eftir hrun þá situr fólk frekar í sínum íbúðum og vill frekar búa þröngt en að fara í úthverfin og fara langt í burtu.“

Stoðþjónusta er einnig virkari nú heldur en 2007. „Grunnskólalög breytast 2008 og svo erum við að auki að vinna eftir starfsáætlun Reykjavíkurborgar,“ segir Ingibjörg. Hagaskóli býður upp á námsráðgjafa og iðjuþjálfa til þess að sinna nemendum með sérstakar þarfir. „Það ræðst eftir nemendahóp hverju sinni hvers konar starfsmann ég ræð inn. Það er erfitt þegar húsnæðið er farið að hamla því að ég finni vinnuaðstöðu fyrir viðkomandi.“ Eins og staðan er núna eru of margir nemendur á þann námsráðgjafa sem starfar í skólanum en ekki er hægt að bæta við öðrum vegna aðstöðuleysis. 

Hér sjást nemendur Hagaskóla spila fótbolta í grenjandi rigningu.Mynd/Pjetur
Heilbrigðiseftirlitið leyfir ekki lengur matseld í skólanum

Nú í maí fór fram reglubundið eftirlit á vegum Heilbrigðiseftirlitsins og niðurstöðurnar bárust skólastjórnendum í júní. Niðurstöðurnar voru afdráttarlausar. „Við eftirlit í mötuneyti nemenda í Hagaskóla kemur í ljós að eldhúsið er of lítið fyrir þá starfsemi sem á sér stað í mötuneytinu,“ segir í skýrslunni. „Miðað við núverandi ástand verður ekki annað séð en að breyta þurfi starfssemi mötuneytisins í móttökueldhús eða súpueldhús með mikilli skerðingu á framleiðslu matvæla.“ Gerir eftirlitið þá kröfu að eigi að halda áfram matseld á sama máta og hefur verið gert skulu endurbætur hafa átt sér stað fyrir upphaf skóla næsta haust. 

Skólayfirvöld hafa eindreginn vilja til þess að halda áfram þeirri matseld sem fram fer í skólanum, mikið sé lagt upp úr henni og tveir réttir sem börnin geta valið á milli. Framreiðslueldhús kemur til greina sem tímabundin lausn segir Ingibjörg ef borgin getur staðfest eitthvað um að framkvæmdir séu á næsta leyti.„Það er ekki hægt að stækka mötuneytið þar sem það er núna. Það þarf að færa það aðeins um.“ 

Sú breyting hefur orðið síðan árið 2007 að nánast allir nemendur skólans nýta sér nú að það sé boðið upp á hádegismat. Þetta er jákvæð þróun að mati skólastjórans. 

Fundar með Reykjavíkurborg 

Ingibjörg segir stjórnendur skólans hafa verið að pressa á að húsnæðisvandinn verði leystur. Hún er tilbúin að skoða alla möguleika en að hennar mati væri langbest að byggja tveggja hæða byggingu á skólasvæðinu. Hún segist hafa sent pósta á Reykjavíkurborg og setið fundi og er jákvæð þrátt fyrir að ekkert sé í hendi.

„Ég var á fundi um daginn og það var svona, engin loforð, en mér fannst meiri vilji en ég hef fundið fyrir áður,“ segir hún vongóð. „Mér finnst ég vera búin að vinna mér inn að það verði settur peningur í Hagaskóla. Það er tilfinningin. Þetta er öflugur skóli og við erum að gera góða hluti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×