Innlent

Dæmdur í sextán mánaða fangelsi fyrir að hafa ráðist á unnustu sína

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/pjetur
Tuttugu og þriggja ára gamall karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í sextán mánaða fangelsi fyrir að hafa veist að þáverandi unnustu sinni á heimili hennar í Breiðholti.

Manninum er gefið að sök að hafa skellt höfði konunnar í gólfið þannig að hægri hluti andlits hennar lenti í gólfinu og hélt hann henni niðri. Maðurinn sparkaði í vinstra auga hennar, íklæddur skóm og tók í hár hennar og ýtti henni upp í rúm þar sem hann tók kverkataki um háls hennar. Konan hlaut miklar bólgur, roða, mar og eymsli í andliti, á höfði og líkama. Þá tognaði hún á hálshrygg, rif- og bringubeini og vinstri litlu tá.

Maðurinn neitaði sök í málinu og sagði unnustu sína þáverandi hafa fengið áverka við að falla á eldhúsinnréttingu á heimili hennar. Konan leitaði á slysadeild í kjölfar atviksins, sem átti sér stað í október 2012. Farið var með hana í sneiðmyndatöku af höfði og andlitsbeinum, ljósmyndir voru teknar og hjartalínurit og var framburður hennar því talinn trúverðugur.

Manninum er gert að greiða konunni, sem er tuttugu og tveggja ára gömul, 1.510.704 krónur auk vaxta í skaðabætur. Honum er jafnframt gert að greiða 678.100 krónur í sakarkostnað auk alls málskostnaðar, að upphæð 550.900 kr.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×