Innlent

Verkefnastjórn ræður endurmati virkjunarkosta

Svavar Hávarðsson skrifar
Hofsjökull og Þjórsárver Verkefnastjórn rammaáætlunar er ekki skyldug til að endurmeta Norðlingaölduveitu sem virkjunarkost, samkvæmt lagatúlkun umhverfisráðuneytisins, nema hún meti það svo að forsendur séu mjög breyttar.
Hofsjökull og Þjórsárver Verkefnastjórn rammaáætlunar er ekki skyldug til að endurmeta Norðlingaölduveitu sem virkjunarkost, samkvæmt lagatúlkun umhverfisráðuneytisins, nema hún meti það svo að forsendur séu mjög breyttar. Fréttablaðið/Vilhelm
Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar (RÁ3) er það í sjálfsvald sett hvort hún fjallar um þá virkjanakosti sem voru flokkaðir í verndar- eða nýtingarflokk í 2. áfanga rammaáætlunnar (RÁ2). Þetta kemur fram í lögfræðiáliti umhverfis- og auðlindaráðuneytisins frá 12. mars. Orkustofnun hefur lagt 91 virkjanakost fyrir verkefnisstjórnina. Formaður verkefnastjórnarinnar segir að forgangsröðun þeirra sé nauðsynleg vegna tíma- og fjárskorts.

Áhugi

Orkustofnun auglýsti 1. október 2013 eftir umsóknum um hvaða virkjanakosti lögaðilar hefðu áhuga á að yrðu teknir til meðferðar hjá verkefnisstjórn RÁ3. Átti það einnig við um þá kosti sem áður hafði verið fjallað um og óháð því í hvaða flokk virkjanakostirnir voru settir við lok RÁ2, eins og segir í auglýsingunni, en eins og komið hefur fram lagði Orkustofnun á dögunum fyrir verkefnisstjórn rammaáætlunar 91 virkjanakost til umfjöllunar. Af þeim eru 27 nýir en um 64 virkjanakosti hefur verkefnisstjórn fjallað áður og flokkað í nýtingar-, bið-, eða verndarflokk. Þar af eru 19 virkjanakostir sem féllu í verndarflokk í afgreiðslu RÁ2, t.d. Norðlingaölduveita sem er afar umdeild.

Stefán Gíslason, formaður verkefnastjórnarinnar, segir í svari til Fréttablaðsins að henni beri ekki skylda til að taka alla kostina fyrir, í það minnsta ekki kosti sem eru í orkunýtingar- eða verndarflokki og engin ný gögn hafa komið fram um.

Vegna auglýsingar Orkustofnunar, og orðalags hennar, kom reyndar upp óvissa í verkefnisstjórn RÁ3 um lagalega stöðu þeirra kosta sem raðað var í orkunýtingarflokk eða verndarflokk í RÁ2 og eru komnir inn aftur til meðferðar. Verkefnastjórnin leitaði því lögfræðiálits umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til að fá úr þessu skorið, en verkefnastjórninni var ekki ljóst hvort henni bæri að meta alla kostina á ný.

Enginn vafi

Í áliti ráðuneytisins um endurmat virkjunarkosta er tekinn af allur vafi um að lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun leggja þessa ákvörðun í hendur verkefnastjórninni óháð því hvernig virkjanakosturinn kom inn á hennar borð að nýju.

„Í samræmi við framangreint er það mat ráðuneytisins að það sé í höndum verkefnisstjórnarinnar hvort tiltekinn virkjunarkostur verði endurmetinn eða ekki.“ Verkefnastjórn ber einfaldlega að rökstyðja ákvörðun sína um hvort forsendur hafa breyst, t.d. með nýjum og betri upplýsingum um viðkomandi virkjunarkost.

Spurður hvort verkefnastjórnin þurfi ekki að forgangsraða þeim virjanakostum sem teknir verða til umfjöllunar vegna fjölda þeirra segir Stefán svo vera. „Verkefnisstjórn hlýtur að verða að forgangsraða. Eins kann hún að fá fyrirmæli frá ráðherra um það. Í öllu falli sé ég ekki hvernig á að vera hægt að fjalla um 91 virkjunarkost samtímis miðað við þann tímaramma og fjárveitingar sem verkefnisstjórnin hefur,“ segir Stefán sem hefur ekki upplýsingar um hvort til standi að auka fjárveitingar til rammaáætlunar vegna tillagna Orkustofnunar.

Skyldan óbreytt

Verkefnastjórnin óskaði einnig eftir áliti ráðuneytisins á lagalegri stöðu vegna þeirra virkjunarkosta sem hún hugsanlega ákveður að taka til endurmats í 3. áfanga, en engar ákvarðanir hafa verið teknar um slíkt. Er þar sérstaklega spurt hvort hægt sé að sækja um framkvæmdaleyfi á svæði eða friðlýsa það meðan virkjanakostur er í endurmati. Í lögfræðiálitinu segir að „Stjórnvöldum er óheimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu vegna virkjunarkostsins [...] Þá hvílir einnig áfram sú skylda á stjórnvöldum að hefja undirbúning að friðlýsingu svæða í verndarflokki.“

verkefnisstjórn ekki skyldug til að gera þetta, skv. lagatúlkun umhverfisráðuneytisins, nema hún meti það svo að „til staðar séu breyttar forsendur sem leiði til þess að þörf sé á að meta virkjunarkostinn að nýju“.

Ekkert gert meðan reglugerðina vantar

Staða Orkustofnunar og verkefnastjórnar 3. áfanga rammaáætlunar er nokkuð sérstök. Beðið er reglugerðar um virkjunarkosti frá stjórnvöldum sem eru forsenda þess að Orkustofnun geti stillt upp nánar þeim virkjanakostum sem til greina koma, og á meðan er verkefnastjórnin í lausu lofti.

Reglugerðin er í raun forsenda þess að vinna verkefnisstjórnar geti hafist, þar sem ekki er hægt að fá öll gögn frá virkjunaraðilum og Orkustofnun fyrr en reglugerðin er tilbúin. Reglugerðin mun vera langt komin og í yfirlestri í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Reglugerðin er unnin með umhverfis- og auðlindaráðuneytingu, sem rammaáætlun heyrir undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×