Innlent

Verkfall hugsanlega í vændum hjá háskólakennurum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Verkfallið færi fram á tímabilinu 25. apríl til 10. maí á lögbundnum próftíma.
Verkfallið færi fram á tímabilinu 25. apríl til 10. maí á lögbundnum próftíma. visir/daníel
Stjórn félags háskólakennara hefur samþykkt að efna til atkvæðagreiðslu í næstu viku um boðun verkfalls. Þetta staðfestir Jörundur Guðmundsson, formaður félags háskólakennara, en verkfallið færi fram á tímabilinu 25. apríl til 10. maí á lögbundnum próftíma.

„Það hefur ekki tekist að fá þá launaleiðréttingu sem félagið hefur leitast eftir,“ segir Jörundur og bendir á að um sé að ræða alla akademíska starfsmenn fyrir utan prófessora sem eru í sér félagi.

„Um er að ræða allt stjórnsýslufólk sem er með háskólapróf. Háskólakennarar hafa dregist verulega aftur úr í launum miðað við aðra skóla eins og við Háskólann í Reykjavík og einnig miðað við prófessora,“ segir Jörundur og bætir því við að félagið hafi áður krafist þess að fá leiðréttingu frá stjórnvöldum en ekki hafi verið orðið við því.

„Við erum komin á það stig að það er orðið mjög erfitt að fá fólk í stöður. Í okkar félagi eru 950 manns sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni sem eru um 800 ársverk. Háskólinn á Akureyri mun væntanlega fara í sömu aðgerðir.“

Atkvæðagreiðslan fer fram frá mánudeginum 17. mars til föstudagsins 21. mars í næstu viku. Um er að ræða lektora, aðjúnkta, dósenta, sérfræðinga, fræðimenn og vísindamenn við skólann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×