Innlent

Baksviðs í Hörpu: Gunni og Friðrik í skýjunum

Óperan Ragnheiður var frumflutt í tónleikaformi í Skálholti um miðjan ágústmánuð og vakti mikla athygli. 

„Verkið komið heim og saman var alveg viðburður tónlistarlega séð þannig að við ákváðum daginn eftir að kaupa verkið til flutnings hjá Íslensku óperunni þannig að þetta er frumsviðs uppsetning á verkinu, heimsfrumsýning,“ segir Stefán Baldursson, óperustjóri Íslensku óperunnar.

Herlegheitin voru frumsýnd í sviðsuppsetningu nú á laugardag í Hörpu, við ótrúlegar undirtektir. Verkið er eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson. Hljómsveitarstjóri er Petri Sakari og með aðalhlutverkin fara Þóra Einarsdóttir og Elmar Gilbertsson.

„Það er ólýsanleg tilfinning,“ sagði tónskáldið Gunnar Þórðarson aðspurður um hvernig upplifun það hefði verið að sjá verk sitt á fjölum Hörpu.

Stefán segir að óperustjórum frá Norðurlöndum og virtum gagnrýnendum hafi verið boðið á sýninguna og vonast hann til þess að með tíð og tíma muni óperan komast út í heim. 

Hugrún Halldórsdóttir og Baldur Hrafnkell myndatökumaður voru á frumsýningunni og ræddu við aðalsöngvarana Þóru og Elmar, leikstjórann Stefán og búningahönnuðinn Þórunni Þorgrímsdóttur. Afraksturinn má sjá í 15 mínútna innslagi hér að ofan. Fagnaðarlætin að lokinni sýningu má sjá á mínútu 5:50. 

Hér má svo sjá eldra innslag sem Ísland í Dag gerði þegar verkið var frumflutt í Skálholti en þar er farið ítarlega yfir sögu Ragnheiðar biskupsdóttur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×