Innlent

Dómarinn fór í leyfi svo taka þarf skýrslur af vitnum á nýjan leik

Friðjón Björgvin Gunnarsson, eigandi Buy.is og Sigurður Þór Helgason, eigandi iPhone.is, eru allt annað en sáttir hvor við annan.
Friðjón Björgvin Gunnarsson, eigandi Buy.is og Sigurður Þór Helgason, eigandi iPhone.is, eru allt annað en sáttir hvor við annan. Vísir/Vilhelm/GVA
Meiðyrðamál í máli þar sem Friðjón Björgvin Gunnarsson, eigandi Buy.is, stefndi Sigurði Þór Helgasyni, eiganda iPhone.is, og Guðjóni Rúnarssyni, var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í annað skipti í morgun.

Skýrslutökum yfir vitnum vegna stefnunnar lauk í haust og aðalmeðferð fór fram 8. nóvember síðastliðinn. Eins og fram kom á Vísi var búist við því þá að dómur í málinu félli innan fjögurra vikna.

Dómarinn í málinu fór hins vegar í leyfi og nú hefur nýr dómari tekið við málinu. Sá hefur ekki haft afskipti af málinu áður og því þarf að taka skýrslur af vitnum á nýjan leik og ný aðalmeðferð var bókuð í lok næsta sumars. Þá verður liðið tæpt ár frá því að fyrri aðalmeðferðin fór fram.

Vilhjámur H. Vilhjálmsson, lögmaður Friðjóns Björgvins, sagði fyrir dómi í morgun að málsmeðferðin hafi verið með ólíkindum.

Friðjón stefndi Sigurði Þór og Guðjóni fyrir að kalla hann óheiðarlegan skattsvikara, væna hann um kennitöluflakk og um að svíkja út vörur og þjónustu án þess að greiða skatta eða gjöld, ásamt öðru.

Ummælin lét Sigurður Þór Helgason falla á vefsvæðinu Vaktin.is undir spjallþræðinum „Kennitöluflakk“. Þar skrifaði hann undir nafninu zobbah, en Friðjón Björgvin vill meina að ummælin innihaldi ærumeiðandi aðdróttanir. Hann gerir þá kröfu að ummælin verði dæmd dauð og ómerk og að Sigurður verði dæmdur til að greiða eina milljón króna í miskabætur. Friðjón vill meina að ummælin séu ósönn og í þeim felist ásakanir um refsiverða og siðferðislega ámælisverða háttsemi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×