Innlent

Mannslát vegna mistaka: Skrýtið að móteitur hafi ekki verið notað

Hrund Þórsdóttir skrifar
Í gær sögðum við frá láti Péturs Péturssonar sem féll frá eftir of stóran skammt af morfínlyfinu Contalgin, sem ætlaður var herbergisfélaga hans á hjúkrunarheimilinu Garðvangi. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að gefa honum ekki móteitur og lést hann níu dögum síðar.

Læknir sem við ræddum við í dag segir að til sé móteitur gegn morfínlyfjum sem virki strax og engin ástæða sé til að spara. Það eyðir þó ekki efnunum úr líkamanum heldur dregur tímabundið úr einkennum og því getur þurft að gefa það endurtekið.

Læknirinn segir skrýtið að móteitur hafi ekki verið notað og Magnús Karl Magnússon, prófessor í lyfja- og eiturefnafræði, tekur undir að það sé óvenjulegt. „Þegar við sjáum alvarleg einkenni um morfíneitrun, þá er langoftast gerð tilraun með að gefa svona móteitur. Það er ekki auðvelt að gera það, það þarf að komast í æð hjá sjúklingnum, en það er tiltölulega hættulítið að gefa það,“ segir Magnús.

Eldra fólk þolir móteitrið og helsta ástæðan fyrir að grípa ekki til þess er ef sjúklingur hefur ofnæmi fyrir því. Þá þarf að taka tillit til undirliggjandi sjúkdóma en jafnvel þótt þeir séu til staðar segir Magnús ráðlegt að nota móteitrið. „Ef um er að ræða lífshættulega aukaverkun, já,“ segir hann.

Samkvæmt lögum skal tilkynna lögreglu ef ætla má að dauðsfall megi rekja til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks við læknismeðferð en lát Péturs var ekki tilkynnt. Það er meðal þess sem er til skoðunar hjá Geir Gunnlaugssyni landlækni og embætti hans, í tengslum við málið. Hann vísar til norskrar reynslu. „Þeir vinna þannig að þegar ekki er grunur um glæpsamlegan ásetning í mistökum í heilbrigðisþjónustu, þá er ekki tilkynnt til lögreglu. Þetta er kannski eitthvað sem við þurfum að skoða og ef til vill að læra eitthvað af,“ segir Geir.

Fjölskylda Péturs ætlar ekki að kæra heldur setur málið í hendur landlæknisembættisins. „Ég get fullvissað ættingjana um það að við munum skoða þetta mál af mikilli festu og miklum heiðarleika,“ segir Geir að lokum.


Tengdar fréttir

Lögreglu ekki tilkynnt um mistök við lyfjagjöf

Pétur Pétursson fékk tvítugfaldan skammt af morfínlyfinu Contalgin sem ætlaður var herbergisfélaga. Lögreglu var ekki tilkynnt um mistökin þrátt fyrir lagaskyldu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×