Erlent

Breivik tekur ekki prófin

Þorgils Jónsson skrifar
Anders Behring Breivik
Anders Behring Breivik
Norski hryðjuverkaðurinn Anders Behring Breivik, sem drap 77 samlanda sína og særði 158 í einhverjum verstu hryðjuverkjum seinni tíma í Evrópu í júlí 2011, hefur sagt sig úr þremur áföngum sem hann hafði skráð sig í við Háskólann í Osló. Hann mun því ekki taka lokaprófin. Frá þessu segir á vef VG.

Breivik var í upphafi synjað um skráningu í stjórnmálafræði þar sem hann uppfyllti ekki inntökukröfur. Hann fékk þó að skrá sig í þrjá grunnáfanga, í alþjóðastjórnmálum, opinberri stjórnsýslu og kenningum í stjórnmálafræði.

Skólavist Breiviks, sem var þó aðeins í fjarnámi, vakti óhug meðal samnemenda hans, en skólastjórnendur segja að einhugur hafi verið að virða jafnréttissjónarmið og réttindi refsifanga til að stunda nám.

Hann sagði sig fyrst úr tveimur áföngum í haust, en hinum síðasta fyrir skemmstu.

Ole Petter Ottersen rektor segir í viðtali við VG að þegar Breivik hafi skráð sig í nám hafi ágangur fjölmiðla verið svo mikill að ekki hafi verið hægt að að anna fyrirspurnum. Því hafi þeir brugðið á það ráð að þessu sinni að tilkynna um stöðu mála til að fyrirbyggja annað eins fár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×