Innlent

Skora á Vigdísi að segja af sér vegna ummæla um RÚV

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Vigdís vill endurskoða fjárframlög til Ríkisútvarpsins.
Vigdís vill endurskoða fjárframlög til Ríkisútvarpsins. samsett mynd
Tæplega 1.700 hafa skrifað undir undirskriftalista þar sem skorað er á Vigdísi Hauksdóttur að segja af sér formennsku í fjárlaganefnd Alþingis sem og hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar vegna ummæla hennar um Ríkisútvarpið, en hún vill endurskoða framlög ríkisins til stofnunarinnar.

„Er eðlilegt að ríkisstofnun eins og RÚV, sem tekur til sín 4 milljarða á ári af skattfé auk auglýsingatekna í samkeppni við einkastöðvar fari fram með þessum hætti?“ sagði Vigdís í viðtali á Bylgjunni í morgun.

„Ég er náttúrlega í þessum hagræðingarhópi og þar liggur allt undir. Mér finnst óeðlilega mikið fjármagn fara í rekstur RÚV. Sérstaklega þegar þeir eru ekki að standa sig betur í fréttaflutningi. Þeir eru hlynntir ákveðinni stefnu og hallast til vinstri. Þetta sjá allir sem vilja sjá. Ég fullyrði það og get staðið við hvar og hvenær sem er að stofnunin er mjög Evrópusambandssinnuð.“

Í áskoruninni er sérstaklega bent á ummælin „Ég er náttúrulega í þessum hagræðingarhópi“, en margir hafa skilið þau ummæli sem hótun af hálfu Vigdísar til RÚV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×