Innlent

Fylgdust með Vikernes um nokkurt skeið

Kristján Hjálmarsson skrifar
Vikernes var handtekinn í Frakklandi í morgun.
Vikernes var handtekinn í Frakklandi í morgun.
Yfirvöld í Frakklandi hafa staðfest við norsku fréttastofuna NRK að þau hafi fylgst með því sem Varg Vikernes hefur aðhafst á netinu síðustu mánuði. Það eru sérstaklega tvö blogg sem hann hélt úti sem þau fylgdust með.

"Okkur grunaði strax að hann ætti hlut að máli því hann hafði skrifað níð um gyðinga, múslima og fleiri," segir franski saksóknarinn Agnés Thibault-Lecuivre í viðtali við NRK.

"Við teljum að hann hafi haft tengsl við öfga hægrimenn sem hugðu á hryðjuverk. Hann er grunaður um það. Við höfum sem stendur ekki fundið nákvæm gögn en við sjáum hvað rannsóknin leiðir í ljós," sagði Agnés.

Norski tónlistarmaðurinn Kristian „Varg“ Vikernes var handtekinn í Frakklandi í dag, grunaður um að hafa skipulagt „stórfelld hryðjuverk“, eins og kemur fram í tilkynningu frá innanríkisráðuneyti Frakklands.

Vikernes var handtekinn á heimili sínu í Corrèze í morgun, en hann var dæmdur í 21 árs fangelsi árið 1994 fyrir morðið á Øystein Aarseth, gítarleikara svartmálmsveitarinnar Mayhem, árið áður.

Vikernes, sem var einnig meðlimur sveitarinnar, fékk reynslulausn úr fangelsi í ársbyrjun 2009. Hann er yfirlýstur nýnasisti og virkur bloggari.

Lögreglan er sögð hafa komist á snoðir um fyrirætlanir Vikernes þegar hann fékk sent eintak af stefnuyfirlýsingu norska fjöldamorðingjans Anders Breiviks, og lét til skarar skríða þegar eiginkona Vikernes keypti fjóra riffla.

Eins og fram kom á Vísi í dag átti Vikernes íslenskan pennavin




Fleiri fréttir

Sjá meira


×