Viðskipti innlent

Hreiðar keypti hundruð milljóna bréf af sjálfum sér - Kaupþing lánaði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson bíður þess að bera vitni í landsdómsmáli.
Hreiðar Már Sigurðsson bíður þess að bera vitni í landsdómsmáli.
Sérstakur saksóknari segir að Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, hafi selt félagi í sinni eigu Hreiðar Már Sigurðsson ehf. bréf fyrir tæpar 572 milljónir króna þann 6. ágúst 2008. Kaupþing fjármagnaði þessi kaup einkahlutafélagsins að fullu en persónulegur hagnaður Hreiðars af viðskiptunum var tæpar 325 milljónir króna. Þetta kemur fram í ákæru sérstaks saksóknara á hendur Hreiðari og átta öðrum fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings. Í raun fjármagnaði bankinn lánið svo Hreiðar gæti keypt bréfin af sjálfum sér.

Ákæran gegn mönnunum var gerð opinber í dag en ákært er fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik. Í einum hluta ákærunnar er fjallað um fjárhagslega hagsmuni Kaupþings og hinna ákærðu af verði hlutabréfa í bankanum.

Í ákærunni kemur fram að hinir ákærðu hafi haft verulega persónulega hagsmuni af því að verð hlutabréfa í bankanum héldist sem hæst. Hreiðar Már hafi ekki átt nein hlutabréf persónulega í bankanum þar sem hann hafi fært hlutabréfaeign sína og skuldir hennar tengdar yfir í félagið Hreiðar Már sigurðsson ehf. árið 2006. Hlutabréf sem hann keypti eftir þann tíma hafi jafnóðum verið færð yfir í félagið.

Tveimur mánuðum eftir viðskipti Hreiðars Más við einkahlutafélag sitt fór bankinn í þrot og skilanefnd á vegum Fjármálaeftirlitsins tók stjórn bankans yfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×