Innlent

Tæki lögreglumann fram yfir listamann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Það er enginn að fylgjast með ölvunarakstri á þessum tíma sólarhrings og enginn að fylgjast með hraðakstri. Það er engin löggæsla á götum Vestmannaeyja á þessum tíma. Það er ástand sem getur ekki viðgengist," segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, í samtali við Vísi.

Líkt og fjallað hefur verið um á Vísi í dag er enginn lögreglumaður á vakt fjóra tíma á hverjum sólarhring. Um er að ræða tímabilið frá 03-07 á næturnar á virkum dögum og frá 06-10 um helgar. Ástæðuna má rekja til niðurskurðar hjá ríkinu en svona hefur staðan verið í tæp tvö ár.

„Við höfum haft af þessu miklar áhyggjur og áður en til þessa niðurskurðar kom lýstum við yfir miklum vonbrigðum með þessa ákvörðun. Við óttuðumst að þetta myndi skerða öryggi íbúa í Vestmannaeyjum á margvíslegan máta," segir Elliði. Hann minnir á að hlutverk lögreglu sé ekki aðeins að koma í veg fyrir glæpi og rannsaka þá.

„Lögreglan er mikilvægasti öryggisventill allra samfélaga. Lögreglan er í þannig þjónustu að það er nánast sama hvaða vá eða hættu ber að hendi að lögreglan er fyrsta viðbragð."

Almennir borgarar geta ekkert gert

Fjörutíu ár eru liðin síðan allir íbúar í Vestmannaeyjum þurftu að flýja heimili sitt vegna eldgoss. Elliði minnir á að lögreglan sé alltaf fyrsti viðbragðsventillinn komi upp eldgos, jarðskjálfti eða hópslys hvort sem er í Vestmannaeyjum eða annars staðar.

„Okkur þykir mjög sárt að ventillinn sé gerður þetta miklu þrengri en verið hefur," segir Elliði. Ýmislegt geti gerst á þessum tíma sem löggæsla liggi niðri.

„Ef svo illa færi að það yrðu heimiliserjur eða áflog á götu úti geta almennir borgarar ekkert gert nema horft á nema hætta eigin lífi og limum," segir Elliði. Þetta sé staða sem geti ekki viðgengist.

Elliði segist hafa skilning á að ríkið þurfi að draga saman. Þó þurfi að forgangsraða betur.

Búa við minna öryggi

„Ef ég þarf að velja um það hvort það sé lögreglumaður á vakt eða listamaður á listamannalaunum þá vel ég lögreglumanninn. Þótt ég vilji ekki gera lítið úr hinum erum við sem þjóð í þeirri stöðu að þurfa að velja og hafna. Hér í Vestmannaeyjum viljum við löggæslu, heilsugæslu og menntun sem forgangsatriði," segir Elliði. Hann segist engu að síður mjög hlynntur menningu og listum.

Aðspurður hvort Vestmannaeyingar hafi fundið fyrir niðurskurðinum í löggæslu undanfarin tvö ár segir Elliði:

„Það er engin spurning að við búum við minna öryggi. Eftir samtöl við lögreglumenn þá telja þeir að lögbrjótar stíli frekar inn á þennan tíma. Það segir sig sjálft."


Tengdar fréttir

Þrjú innbrot á meðan löggustöðin er lokuð

"Hérna hefur verið sólarhringsvakt í áratugi. Þetta er áratugaafturför. Hérna er hávertíð, hundruð manna að vinna allan sólarhringinn en ekki lögregla nema hluta sólarhringsins. Í stærsta útgerðarbæ landsins."

Hettuklæddir menn en engin lögga á vakt

Grétar Ómarsson, íbúi í Vestmannaeyjum, hefur sent innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, skriflega fyrirspurn vegna atviks sem kom upp á Heimaey aðfaranótt þriðjudags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×