Innlent

Fara sér hægt í framhaldsskóla

Íslensk ungmenni fara sér hægt við að ljúka framhaldsskólanámi.
Íslensk ungmenni fara sér hægt við að ljúka framhaldsskólanámi. nordicphotos/getty images
Á Íslandi ljúka hlutfallslega færri framhaldsskólanemar námi á tilskyldum tíma en í öðrum OECD-löndum.

Aðeins 44% íslenskra nema hafa lokið prófi eftir fjögur ár; eftir sex ár hafa 58% brautskráðst.

Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um stöðu menntamála í aðildarríkjunum árið 2010 sem gefin var út í gær.

Þegar litið er til annarra landa til samanburðar kemur í ljós að í öllum löndum nema Íslandi og Mexíkó hafa yfir sextíu prósent lokið námi tveimur árum eftir tilskilinn tíma. Í hinum Norðurlöndunum er hlutfallið yfir sjötíu prósent. Á móti kemur að hvergi nema í Portúgal ljúka fleiri framhaldsskólaprófi seinna á lífsleiðinni en á Íslandi.

Skýrsla OECD leiðir í ljós að menntunarstaða Íslendinga hefur batnað jafnt og þétt frá aldamótum. Árið 2010 höfðu 33% fólks á aldrinum 25-64 ára á Íslandi lokið háskólaprófi og 33% höfðu ekki lokið neinu prófi eftir grunnskóla samanborið við 21% og 45% um aldamótin.

Árleg útgjöld vegna hvers nemanda á Íslandi, að meðaltali fyrir öll skólastig árið 2009, var um 1,2 milljónir íslenskra króna miðað við gengi í lok árs 2009. Það er hærra en meðaltal OECD-landanna en lægra en á hinum Norðurlöndunum.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×