Skoðun

Við eigum að geta gert vel

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
Mikið hefur verið rætt og fjallað um málefni útlendinga, og þá sérstaklega hælisleitenda, undanfarið. Þessi mál komast í almenna umræðu hér á landi nokkuð seinna en í nágrannalöndunum, þar sem þau hafa verið pólitískt bitbein í mörg ár.

Í viðtali við Fréttablaðið í maí sagði Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, að sér þætti umræðan hér á landi vera frumstæð og sleggjudómakennd. „Það hefur aldrei farið fram nein raunveruleg umræða um hælisleitendur og hvernig á að taka á móti þeim. Ekki heldur um hvernig við eigum að haga okkur gagnvart erlendum ríkisborgurum almennt," sagði hún meðal annars. Hún benti jafnframt á að stjórnmálaflokkar hér á landi hefðu ekki mótað sér stefnu í þessum málum. Því hefur verið spáð að breyting verði á þessu á næstunni og að í alþingiskosningum næsta árs verði útlendingamál framar á dagskránni en áður. Ólíklegt verður þó að teljast að nokkur stóru flokkanna taki upp harða stefnu gegn útlendingum.

Þrátt fyrir allt hefur þónokkuð áunnist í málefnum hælisleitenda hér á landi síðustu árin. Breytingar voru gerðar á lögum árið 2010 sem bættu stöðu hælisleitenda og flóttamanna. Skýrsla sem nefnd um málefni útlendinga utan Evrópska efnahagssvæðisins gerði, og var gefin var út í júní síðastliðnum, leggur til enn frekari úrbætur. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur boðað að frumvarp að nýjum heildarlögum um útlendinga verði lagt fram í þinginu í haust. Frumvarpið mun byggja á tillögum nefndarinnar. Ef af verður má segja að lagaramminn komist í gott horf.

Það sem vantar hins vegar upp á er framkvæmdin. Útlendingastofnun, sem er ætlað sífellt stærra hlutverk, er ekki risastórt bákn eins og margir virðast halda. Þar vinna um tuttugu manns í heildina sem eiga að afgreiða allar umsóknir um dvalarleyfi og hæli sem hingað berast. Dvalarleyfisumsóknir eru í kringum 3500 og um áttatíu hælisleitendur bíða úrlausna sinna mála. Fjórir lögfræðingar starfa hjá stofnuninni, en að sögn forstjórans þyrftu þeir að vera tvöfalt fleiri. Hver lögfræðingur sem aðeins sinnir hælisleitendum getur aðeins afgreitt tvö mál á mánuði og biðtíminn nálgast því tvö ár.

Biðin kostar ríkið háar upphæðir og hefur ömurleg áhrif á þá sem þurfa að bíða. Vel má vera að ekki sé hægt að taka við öllum sem hér vilja vera, en mannúðin felst þá í því að fólk þurfi ekki að sitja aðgerðalaust upp á von og óvon svo árum skipti. Taka má undir orð Kristínar Völundardóttur frá því í vor, við eigum að geta gert vel hér á landi af því að þetta er svo lítill fjöldi sem um ræðir.

Vilji virðist vera fyrir því í innanríkisráðuneytinu að bæta úr þessu og spennandi verður því að sjá hvernig tekið verður á málefnum Útlendingastofnunar í væntanlegum fjárlögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×