Fastir pennar

Óréttlæti

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) komst að þeirri niðurstöðu nýverið að kaup nýju bankanna þriggja á ónýtum skuldabréfum úr átta fjárfestingasjóðum, þar á meðal peningamarkaðssjóðum, væri samræmanleg EES-samningnum. Í niðurstöðu þeirra segir: „ESA lítur svo á að kaupin á skuldabréfasöfnunum, sem sýnilega höfðu skerst verulega í virði, hafi verið fjármögnuð af ríkisfjármunum og að ákvarðanirnar um kaupin megi rekja til íslenska ríkisins“. Síðar segist stofnunin „líta svo á að ráðstafanirnar sem hér um ræðir hafi verið nauðsynlegar til þess að endurbyggja traust á fjármálageiranum. Í því tilliti voru úrræðin nauðsynleg og í samræmi við meðalhóf að því marki að skýla fjárfestum frá enn stærra tapi á sparifé sínu“.

Peningamarkaðssjóðir keyptu skuldabréf í áhættusæknum rekstri. Þeir skiluðu mun hærri ávöxtun á ári en innlán á árunum fyrir hrun. Þeir sem keyptu hlutdeildarskírteini í þeim voru því að leggja peninga sína undir til að reyna að græða meira hraðar. Fyrir utan bréf bankanna sjálfra voru meðal annars bréf frá Baugi, Stoðum/FL Group, Milestone, Samson, Atorku og Landic Property uppistaðan í stærstu sjóðunum. Þessi félög urðu gjaldþrota eða fóru í greiðslustöðvun nánast um leið og bankahrunið reið yfir. Skuldabréf þeirra eru í besta falli mjög verðlítil.

Þetta vissu þeir stjórnendur bankanna sem höfðu yfirsýn yfir félögin, enda voru þau öll meðal stærstu skuldara þeirra. Samt var ákveðið að nýju bankarnir keyptu skuldabréf fyrir 82,2 milljarða króna út úr sjóðunum. Rúmlega 75 prósent þeirra voru keypt úr sjóðum Landsbankans, sem er að langstærstu leyti í eigu íslenska ríkisins. Vegna ákvörðunarinnar fengu þeir sem áttu hluti í peningamarkaðssjóðum 68,8 til 85,3 prósent eigna sinna til baka.

Rannsókn ESA byggði á kvörtun þriggja annarra fjármálafyrirtækja sem nutu ekki sömu fyrirgreiðslu úr ríkissjóði þrátt fyrir að peningamarkaðssjóðir þeirra væru fullir af sömu nánast verðlitlu bréfunum. Ljóst er á niðurstöðu ESA að ekki var nauðsynlegt að skýla fjárfestum í þeim sjóðum frá enn stærra tapi á sparifé sínu.

Það er í raun ótrúlegt á hversu litlum jafnréttisgrundvelli það peningaskjól sem ríkið hefur boðið upp á eftir hrun hefur verið. Þegar öll innlán voru tryggð tók íslenska ríkið á sig nokkur þúsund milljarða króna ábyrgð á innlánum. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að ef fimm milljón króna hámarksvernd hefði verið sett á innstæður þá hefðu skuldbinding ríkisins vegna þeirra verið 555 milljarðar króna miðað við umfang þeirra í maí 2008. Hefði slík aðferðarfræði orðið ofan á hefðu 95 prósent einstaklinga verið með allan sparnað sinn í vari. Sama hefði átt við um 90 prósent lögaðila. Stórir fjármagnseigendur hefðu verið látnir sitja uppi með stóran reikning. Þess í stað ábyrgðist ríkið eignir þeirra.

Samkvæmt niðurstöðu ESA voru kaup á ónýtum skuldabréfum úr peningamarkaðssjóðum líka ákvörðun stjórnvalda. Þau ákváðu því, með báðum þessum ákvörðunum, „að skýla fjárfestum frá enn stærra tapi á sparifé sínu“. Þetta gerðu þau á kostnað þeirra sem áttu lítið eða ekkert sparifé og gátu ekki tekið þátt í gullgrafaraævintýrum fyrir-hruns-áranna. Skattgreiðendur greiða reikninginn þótt einungis lítið brot þeirra hafi hagnast á ákvörðuninni. Það kann að vera samrýmanlegt við EES-löggjöf, en það er hvorki réttlátt né boðlegt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×