Erlent

Réttarhöldum yfir Breivik að ljúka

Anders Behring Breivik ásamt verjanda sínum Geir Lippestad í réttarsal í Ósló í gær.
Anders Behring Breivik ásamt verjanda sínum Geir Lippestad í réttarsal í Ósló í gær. Fréttablaðið/AP
Svein Holden, saksóknari í dómsmáli norska fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik, krafðist þess í gær í lokaávarpi sínu að Breivik yrði dæmdur til vistunar á stofnun fyrir geðveika fremur en til fangelsisvistar.

Fallist dómurinn í málinu á kröfur Holden þýðir það að Breivik er ekki metinn sakhæfur vegna árásanna í Ósló og Útey 22. júlí í fyrra. Yrði Breivik sem fyrr segir vistaður á stofnun fyrir geðveika þar sem hann gæti þurft að dveljast til æviloka.

Í ávarpinu sagði Holden að óréttlætanlegt væri að dæma Breivik til fangelsisvistar þegar jafn mikill vafi væri á geðheilbrigði hans og raun bæri vitni. Tvær ólíkar skýrslur hafa verið unnar um geðheilbrigði Breiviks. Í annarri var hann talinn sakhæfur en í hinni ekki.

Þá krafðist Holden þess til vara að Breivik yrði dæmdur til hámarksrefsingar í norskum lögum, 21 árs fangelsisvistar. Taka má fram að slíka refsingu má þó lengja að henni lokinni teljist viðkomandi fangi enn ógn við samfélagið.

Verjandi Breiviks, Geir Lippestad, mun í dag flytja lokaávarp sitt í réttarhöldunum en hann mun sennilega mótmæla kröfu saksóknara um ósakhæfi.

Breivik hefur sjálfur haldið því fram að krafan um ósakhæfi sé leið norskra stjórnvalda til að draga athyglina frá hugmyndafræði sinni og verkum.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×