Innlent

Mál starfs­mannanna ein­stakt til­vik

Sérstakur saksóknari kærði tvo lögreglumenn sem starfað hafa hjá embættinu um margra ára skeið til Ríkislögreglustjóra fyrir brot á þagnarskyldu í apríl síðastliðnum.

Mennirnir tveir höfðu tekið að sér vinnu fyrir þrotabú Milestone á sama tíma og þeir unnu fyrir embættið við rannsókn á tengdum málum. Vangaveltur hafa verið uppi um hvort að athæfi mannanna geti skaðað málarekstur embættisins í málum sem tengjast Milestone. Ólafur segist ekki geta sagt til um hvaða áhrif málið gæti haft, enda sé það ekki í hans höndum.

„Þessir tveir menn unnu að hinu svokallaða Sjóvármáli. Vafningsmálið, sem er fyrir dómstólum, er sprottið úr þeirri rannsókn. Það er þegar komin fram frávísunarkrafa í því máli. Við henni hefur verið brugðist með sérstakri bókun sem lögð var fram 6. júní. Samkvæmt henni er sett upp ákveðin skoðun á Vafningsmálinu og vegið og metið hvaða áhrif þetta getur haft."

Hann segir áhrifin af þessu máli ekki bara snúa að þeim málum sem mennirnir tveir rannsökuðu, heldur geti það haft víðtækari afleiðingar.

„Það sem við höfum áhyggjur af er að okkur finnst það skipta gríðarlega miklu máli að embættið njóti trausts og að trúverðugleiki þess sé yfir vafa hafinn. Þess vegna er þessi uppákoma ekki bara tengd þessu máli, heldur er mjög slæmt yfir höfuð að þetta hafi komið upp. En á hinn bóginn er ég sannfærður um að þetta sé einstakt tilvik."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×