Erlent

Margir með afbrot að baki

Heimili Breiviks Á heimili Anders Behring Breivik fannst mikið magn efnis sem hægt var að nota til sprengjugerðar.
nordicphotos/afp
Heimili Breiviks Á heimili Anders Behring Breivik fannst mikið magn efnis sem hægt var að nota til sprengjugerðar. nordicphotos/afp
Margir þeirra sem keyptu efni til sprengjugerðar frá sömu efnaverksmiðjunni í Póllandi og Anders Behring Breivik hafa komið við sögu lögreglu, að því er greint er frá á vef Dagsavisen.

Eftir að norska öryggislögreglan hafði farið yfir lista sem á var 41 einstaklingur, þar á meðal Breivik, kom í ljós að þriðjungur þeirra sem voru á listanum hafði hlotið refsingu og að þriðjungur átti lögleg vopn.

Þrír á listanum höfðu áður sýnt áhuga á efnum til sprengjugerðar. Þetta kemur fram í skýrslu öryggislögreglunnar í Noregi sem kynnt var í gær. Listann fékk norska öryggislögreglan hjá tollayfirvöldum en þau höfðu skráð hverjir keyptu efni sem hægt væri að nota til þess að búa til sprengjur.

Í skýrslu öryggislögreglunnar segir að áhugi á vopnum sé sameiginlegur með þeim sem eru á listanum. Margir hafi verið dæmdir fyrir lögbrot eða hafi verið þátttakendur í athæfi á gráu svæði.

Í skýrslunni segir jafnframt að vegna þess hversu langt þetta sé frá því sem eðlilegt geti talist kunni að vera ástæða til að skoða þá sem eru á listanum.

Áður en Breivik framdi voðaverkin þann 22. júlí síðastliðinn taldi öryggislögreglan ekki ástæðu til að grípa til ráðstafana.- ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×