Skoðun

Dilkadráttur Vilhjálms

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
Vilhjálmur Bjarnason skrifar grein í Morgunblaðið í dag, þar sem hann fjallar um persónuleg mál mín. Vilhjálmur er á sinn sérstaka hátt að bregðast við sjónarmiðum sem ég setti fram í Fréttablaðsgrein í vikunni.

Í smekkvísi sinni vitnar Vilhjálmur í samtöl á æskuheimili mínu, sem enginn kannast við, enda flestir hugsanlegir viðmælendur hans fallnir frá. Svo blandar hann ágætum mági mínum í málið. Mín sjónarmið eru mági mínum óviðkomandi.

Grein Vilhjálms er dæmigerð fyrir umræðuna á Íslandi nú um stundir. Hann dregur fólk í dilka, staðsetur það í einhverju ímynduðu liði, og gerir því skóna að viðmælandinn sé á mála hjá einhverjum.

Á svona lágkúrulegu plani er lítt fýsilegt að taka þátt í umræðunni – þrasinu öllu heldur.

Mér fannst Vilhjálmur falla í sama pyttinn og svo margir gera um þessar mundir, fara í manninn en ekki boltann.

Kristín Þorsteinsdóttir

fyrrverandi fréttamaður á Ríkisútvarpinu




Skoðun

Sjá meira


×