Viðskipti innlent

Starbucks kannar Ísland

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
MYND/AFP
Bandaríska kaffihúsakeðjan Starbucks gæti verið á leiðinni til landsins og hefur þegar stigið fyrstu skrefin til undirbúnings.

Í síðustu tíðindum Einkaleyfastofu má sjá að kaffihúsakeðjan Starbucks skráði í byrjun nóvember eitt af vörumerkjum sínum hér á landi. Félagið hefur síðan í desember 2010 skráð 30 vörumerki á Íslandi. Til að mynda vörumerki fyrir drykki og veitingahúsaþjónustu.

Um er að ræða einkarétt á notkun vörumerkjanna hér á landi. Fyrirtækið getur átt merkin án þess að nota þau í að minnsta kosti fimm ár.

Kostnaður við að skrá vörumerkin hjá Einkaleyfastofu er um milljón. Lögmannsstofan Sigurjónsson og Thor hefur séð um að sækja um leyfin fyrir Starbucks. Þar á bæ fengust þau svör að stofan gæti ekki tjáð sig um málið.

Þegar fréttastofa hafði samband við Starbucks í Bandaríkjunum til að kanna hver áform fyrirtækisins eru hér á landi fengust þau svör að það hafi ekkert opinberlega að segja um málið að svo stöddu. Samkvæmt svarinu útilokar kaffirisinn greinilega ekki að hann hyggist hefja starfsemi á Íslandi.

Skömmu eftir að Starbucks hóf að skrá vörumerki sín hér á landi eða í febrúar í fyrra greindu norskir fjölmiðlar frá því að kaffihúsakeðjan hyggðist opna útibú þar í landi. Í haust var svo greint frá því að Norðmaðurinn Jens Ulltveit-Moe hefði tryggt sér rétt til að reka Starbucks í Skandinavíu og ætli sér stóra hluti.

Starbucks er stærsta kaffihúsakeðjan í heiminum í dag en hún rekur átján þúsund kaffihús og verslanir í 60 löndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×