Erlent

Norska lögreglan gagnrýnd fyrir viðbrögð við fjöldamorðunum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Aðstandendur þeirra sem létust komu saman 22. júlí síðastliðinn í Útey til að minnast atburðanna.
Aðstandendur þeirra sem létust komu saman 22. júlí síðastliðinn í Útey til að minnast atburðanna. mynd/ afp.
Norska lögreglan er harðlega gagnrýnd í svokallaðri 22. júlí skýrslu, sem fjallar um viðbrögð við fjöldamorðunum í Osló og Útey í fyrra. Þá varð Anders Behring Breivik 77 manns að bana. Skýrslunni var lekið í fjölmiðla og birtu þeir helstu atriði hennar í morgun.

Það voru norsk stjórnvöld sem fóru fram á það í fyrra að skýrslan yrði unnin en með henni á að kryfja til mergjar hvernig norsk yfirvöld tóku á málinu. Samkvæmt fréttastofu NTB er lögreglan gagnrýnd harðlega fyrir sinn hlut.

Meðal annars er gagnrýnt að lögreglan hafi ekki gripið til nauðsynlegra ráðstafana til þess að stöðva umferð í Osló eftir að sprengingin varð í stjórnarráðshverfinu í Osló. Auk þess segir að tilkynning sem lögreglunni barst um mann, sem mögulega væri á flótta frá Osló, hafi verið allt of lengi í fjarskiptamiðstöð lögreglunnar. Fjarskiptamiðstöðin hafi auk þess verið illa mönnuð af fólki sem ekki var þjálfað til að taka ákvarðanir. Einnig er gagnrýnt að fyrstu lögreglumennirnir sem fóru í Útey hafi ekki farið þangað samstundis.

Miklar vangaveltur voru um það, þangað til skýrslan var birt í fjölmiðlum, hvort gagnrýni sem í henni fælist yrði tekið alvarlega eða hvort skýrslunni yrði stungið undir stól. Nú þykir víst að ekki sé hægt að hunsa skilaboðin í henni.

Skýrslan verður afhent stjórnvöldum á mánudag og verður blaðamannafundur haldinn eftir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×