Innlent

Hæsti­réttur stað­festir úr­skurð í Vafningsmálinu

BBI skrifar

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms að hafna kröfu verjenda í Vafningsmálinu. Þeir höfðu krafist þess að embætti sérstaks saksóknara fengi ekki að leggja fram greinargerð um innanhússrannsókn á rannsakendum málsins.

Hæstiréttur sagði að greinargerðin þjónaði þeim tilgangi einum að varpa ljósi á rannsóknina og tiltekna þætti hennar. Án þess dómstóllinn tæki afstöðu til sönnunargildis greinargerðarinnar að svo stöddu þótti ekki ástæða til að synja um framlagningu hennar.

Í íslensku sakamálaréttarfari þarf yfirleitt mikið til að koma svo málsaðilum sé synjað um framlagningu gagna. Það þýðir hins vegar ekki endilega að mikið verði byggt á þeim þegar dómstólar komast að efnislegri niðurstöðu.

Ásteytingarsteinninn í málinu er sá að tveir starfsmenn Sérstaks saksóknara komu að rannsókn í Vafningsmálinu á meðan félag í þeirra eigu vann fyrir þrotabú Milestone sem snertir sakarefni málsins. Þetta töldu verjendur Lárusar Welding og Guðmundar Hjaltasonar, sem ákærðir eru í Vafningsmálinu, spilla allri rannsókninni og kröfðust frávísunar málsins.

Embætti sérstaks saksóknara vildi leggja fram greinargerð til að sýna fram á að þetta hefði ekki grafið undan rannsókninni. Verjendurnir töldu að sú greinargerð ætti ekki að komast að enda væri hún ekki unnin af óháðum aðila. Nú hafa dómstólar sagt að sú greinargerð fái að komast að.


Tengdar fréttir

Kröfu verjenda í Vafningsmálinu hafnað

Kröfu verjenda Lárusar Welding og Guðmundar Hjaltasonar, sem ákærðir eru í Vafningsmálinu svokallaða fyrir meint umboðssvik, um að greinargerð embættis sérstaks saksóknara um innanhúsrannsókn á rannsakendum málsins, verði ekki tekin gild var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur. Símon Sigvaldason dómari kvað upp úrskurð þess efnis klukkan 14:00 í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×