Sport

Róbert Íslandsmeistari á öllum áhöldum

Róbert var í banastuði í dag.
Róbert var í banastuði í dag. mynd/daníel
Síðari keppnisdagur á Íslandsmeistaramótinu í fimleikum fór fram í Ármannsheimilinu í dag. Þá fór fram keppni í úrslitum á einstaka áhöldum í karla- og kvennaflokki, ásamt unglingaflokki karla og kvenna.

Í kvennaflokki var það Norma Dögg Róbertsdóttir úr Gerplu sem landaði Íslandsmeistaratitlinum á stökki með einkunnina 13,025. Á tvíslá sigraði svo Tinna Óðinsdóttir sem einnig kemur úr Gerplu með einkunnina 10,75.

Það var svo Jóhanna Rakel Jónasdóttir úr Ármanni sem sigraði keppni á jafnvægisslá með einkunnina 12,0. Íslandsmeistarinn frá því í fjölþrautinni í gær, Thelma Rut Hermannsdóttir úr Gerplu sigraði svo keppni í gólfæfingum með einkunnina 12.2.

Í karlaflokki er skemmst frá því að segja að Íslandsmeistarinn í fjölþraut frá því í gær Róbert Kristmannsson úr Gerplu sigraði svo á öllum áhöldum í dag með nokkrum yfirburðum. Einkunnir hans voru: 12,25 í gólfæfingum, 13,35 í æfingum á bogahesti, 12,55 í hringjum, 7,325 á stökki, 12,7 í æfingum á tvíslá og svo 12,45 í æfingum á svifrá.

Í unglingaflokki kvenna sigraði Freyja Húnfjörð Jósepsdóttir úr Björk á stökki með einkunnina 13,3. Andrea Rós Jónsdóttir, sem einnig kemur úr Björk, sigraði í æfingum á tvíslá með einkunnina 10,55.

Freyja Húnfjörð Jósepsdóttir sigraði einnig í keppni á jafnvægisslá með einkunnina 10,35. En það var svo Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir úr Gerplu sem sigraði í gólfæfingum með einkunnina 12,25.

Í unglingaflokki karla sigraði íslandsmeistarinn í fjölþraut frá því í gær, Sigurður Andrés Sigurðarson úr Ármanni í æfingum á tvíslá með einkunnina 12,75. Sigurður Andrés og Eyþór Örn Baldursson úr Gerplu deildu svo fyrsta sætinu fyrir gólfæfingar báðir með einkunnina 12,05.

Eyþór Örn sigraði einnig í æfingum á hringjum með einkunnina 11,1 og á stökki með einkunnina 12,8. Það var svo Hróbjartur Pálmar Hilmarsson sem sigraði á svifrá með einkunnina 11,25.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×