Innlent

Geir fyrstur í vitnastúku á mánudag

Aðalmeðferð í Landsdómsmálinu hefst á mánudag. Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og sakborningur, verður fyrstur í vitnastúku í málinu á mánudag.
Aðalmeðferð í Landsdómsmálinu hefst á mánudag. Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og sakborningur, verður fyrstur í vitnastúku í málinu á mánudag.
Aðalmeðferð í Landsdómsmálinu hefst á mánudag. Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og sakborningur, verður fyrstur í vitnastúku í málinu á mánudag. Samkvæmt áætlun á Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra í aðdraganda hrunsins, einnig að bera vitni þann dag.

Það hvort Ingibjörg Sólrún beri vitni á mánudag veltur á því hvort hún nái til landsins í tæka tíð, en hún starfar sem yfirmaður Un Women í Kabúl, höfuðborg Afganistans.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að stefnt sé að því að alls sex vitni verði kölluð fyrir á þriðjudag. Fyrst eiga fjórir ráðherrar úr ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem Geir Haarde veitti forstöðu fram í febrúar 2009, að setjast í vitnastúkuna. Þeir eru Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, sem var viðskiptaráðherra, Össur Skarphéðinsson sitjandi utanríkisráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Óvissa er þó um að Árni verði kominn til landsins, en hann starfar sem aðstoðarframkvæmdastjóri Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í Róm á Ítalíu.

Í kjölfarið mun Arnór Sighvatsson, fyrrverandi aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands og núverandi aðstoðarseðlabankastjóri, bera vitni. Að því loknu mun Davíð Oddsson, sem var formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands frá september 2005 og fram í febrúar 2009, setjast í vitnastúkuna. Alls er búist við því að á sjötta tug vitna verði kölluð fyrir í málsmeðferðinni, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

Landsdómur vísaði tveimur ákæruliðum í Landsdómsmálinu frá í október síðastliðnum. Eftir standa fjórir ákæruliðir og mun efnisdómur ganga um þá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×