Innlent

Steingrímur: Mistök áttu sér stað í salt-málinu

Það er ævintýri líkast að notkun iðnaðarsalts í mætvæli skuli hafa átt sér stað fyrir allra augum í á annan áratug. Þetta sagði efnahags- og viðskiptaráðherra á Alþingi í dag en hann telur að eftirlitið hafi þurft að standa sig miklu betur.

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, var á Alþingi inntur eftir viðbrögðum við því að iðnaðarsalt hafi verið notað í matvælaframleiðslu um árabil hér á landi í meira en áratug. Ráðherrann sagði málið sýna að mikilvægt væri að bæta upplýsingagjöf.

„Hún hefur ekki verið í lagi. Það er alveg ljóst. Það áttu sér stað mistök í meðferð þess máls og ég hef sjálfur sagt það að ég hef talið að það væri misráðið að heimila að nota þær birgðir sem að enn voru til staðar þegar upp komst. Það verða tekin sýni úr þessu salti og allt gert sem hægt er til að upplýsa það hvað hafi átt sér stað. Auðvitað er það ævintýri líkast að þessi notkun skuli hafa átt sér stað framan við allra augu í á annan áratug," sagði Steingrímur á Alþingi í dag.

Þingmenn bentu á að eftirliti hefði verið ábótavant og það ekki í fyrsta sinn. Stutt er síðan að of mikið kadíum fannst í áburði en engu að síður var sala hans ekki stöðvuð.

„Eftirlitið hefði þurft að standa sig þarna að sjálfsögðu miklu betur. Það þarf að huga að því hvernig það vinnur saman. Það er ljóst að það voru hnökrar í samskiptum Matvælastofnunar og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í þessu máli, það er ljóst og þá þarf að taka á því," sagði Steingrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×