Skoðun

Verjum tón­listarskólana

Ágúst Einarsson skrifar
Skelfileg tíðindi berast frá sveitar­félögum, einkum Reykjavík, um niðurskurð á framlagi til tónlistarskóla. Tónlistarskólar hafa búið við skert framlög eins og aðrir eftir hrun en nú skal enn skorið niður.

Þetta má ekki gerast. Það vita ekki allir að tónlistin skapar geysimikil verðmæti í okkar samfélagi og er hornsteinn hins blómlega menningarstarfs sem er allt í kringum okkur. Tónlistin veitir ánægju en býr til verðmæti í meiri mæli en margar aðrar atvinnugreinar.

Ein helsta ástæðan fyrir því er hið öfluga starf tónlistarskóla er að form þeirra með blöndu af opinberum framlögum og einkaskólum hefur reynst ákaflega farsælt. Ef vegið er að rótum þessa starfs þá er það eins og að höggva stórt tré. Það tré grær ekki aftur og það tekur það langan tíma að ná sömu stærð á ný.

Í árdaga menningar okkar, á fyrstu öldum íslensks samfélags, hélt tungumálið og Íslendingasögurnar fólkinu og menningunni saman og almenningur lifði í þeim sögum. Seinna var það margvíslegur kveðskapur, hvort sem voru trúarkvæði eða rímur, en á þessari og síðustu öld voru það skáldverkin og tónlistin sem umluku líf almennings. Sögur og tónlist eru menning allra, ekki hinna fáu.

Það eru fulltrúar almennings, stjórnmálamenn, sem taka þessar ákvarðanir og þeir eru ekki fulltrúar sjálfs síns heldur fólksins í landinu. Það er menningarstarf sem gerir það vert að lifa í þessu samfélagi okkar og hornsteinn þess er tónlistin. Hætta á við frekari niðurskurð í tónlistar­námi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×