Viðskipti innlent

Skuldin gæti hækkað um 665 milljarða

Mögulegur vaxtakostnaður vegna Icesave gæti orðið rúmir 713 milljarðar, tapist málið fyrir dómstólum árið 2014. Þessar niðurstöður miða við að Íslendingum verði gert að greiða sömu vexti og Portúgal greiðir af sínum neyðarlánum. Fái Íslendingar sömu vexti og Írar, endar málið í 513 milljörðum. Sé núverandi samningur látinn gilda, eftir að þrotabú gamla Landsbankans hefur verið gert upp, endar skuldin í 48 milljörðum króna. Þar er miðað við þá 20 milljarða sem nú þegar eru til staðar.

Þetta eru niðurstöður nýrra útreikninga sem unnir voru fyrir íslensku samninganefndina um Icesave.

Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður og einn af samningamönnum Íslands, segir útreikningana meðal annars hafa verið gerða í ljósi þess misskilnings sem hefur verið á kreiki að verði farið með málið fyrir dómstóla gætu Íslendingar endað á því að greiða ekki kostnað af því.

„Menn eru að halda fram að kostnaðurinn við Icesave-samningana gæti verið allt frá 25 og upp í 250 milljarða, á meðan kostnaðurinn við það ef málið tapast fyrir dómstólum sé frá núll og upp í 140. Í ljósi þess er nauðsynlegt að menn fái betri upplýsingar svo ekki sé verið að taka ákvarðanir á kolröngum forsendum,“ segir Lárus. „Það myndi geta kostað okkur mörg hundruð milljarða.“

Samkvæmt útreikningunum, sé miðað við 86 prósenta endurheimtur og gengisspár, fæst nokkurn veginn upp í höfuðstól Icesave-skuldarinnar. Sé samningaleiðin farin með núverandi samingi, gætu endurheimtur úr þrotabúi gamla Landsbankans verið 8 milljörðum meiri heldur en höfuðstóll skuldarinnar.

Meðal þeirra forsenda sem gefnar eru í útreikningunum eru meðal annars þær að forgangsgröfur Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) eru 1.171 milljarðar króna og sömuleiðis skuld við Breta og Hollendinga. Heildarkröfur búsins eru 1.321 milljarðar og TIF fær 88,64 prósent af öllum útgreiðslum búsins og er endurheimtuhlutfall 86 prósent. Afborganir af höfuðstól hefjast árið 2016 þegar búið hefur verið gert upp. sunna@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×