Erlent

Systir Breiviks hafði miklar áhyggjur af honum

Hálfsystir norska fjöldamorðingjans Anders Behrings Breivik lýsti því í tölvupósti fyrir tveimur árum síðan að hún hefði áhyggjur af háttalagi bróður síns.

Tölvupóstinn sendi systirin til móður Anders en þessar upplýsingar koma fram í skýrslu geðlækna sem á dögunum mátu Anders Behring ósakhæfan sökum alvarlegrar geðveilu. Í bréfinu óskar systirin, sem er 38 ára og fluttist til Bandaríkjanna átján ára gömul, eftir nánara samneyti við móður sína og bróður. Hún segist einnig hafa miklar áhyggjur af andlegu ástandi yngri bróður síns. Hann væri heltekinn af tölvuleikjum og væri í mjög litlu sambandi við annað fólk. Systkinin héldu hinsvegar alltaf nokkru sambandi og er hún ein af fáum sem vitað er til að hafi rætt við hann dagana fyrir árásirnar í Osló og í Útey.

Bandarísk lögregluyfirvöld ræddu við konuna í vikunni og segir í blaðinu Verdens Gang að hún hafi látið lögreglu í té nöfn á nokkrum aðilum sem gætu mögulega gefið frekari upplýsingar um skipulagningu árásanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×