Erlent

Breivik losnar úr einangrun á mánudag

mynd/AFP
Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik losnar úr einangrun á mánudaginn kemur en hann hefur verið í einangrunarklefa í 87 daga, eða frá því hann var handtekinn á Útey eftir að hafa myrt 69 manns. Á blaðamannafundi sem haldinn var í morgun í Noregi kom fram hjá lögreglu að hún gerði ekki athugasemdir við að dómari skuli hafa úrskurðað að Breivik ætti ekki að vera áfram í einangrun. Þótt hann losni úr einangrun þarf hann þó að beygja sig undir strangar reglur. Hann fær ekki að tjá sig við fjölmiðla og getur ekki haft samband við fólk utan fangelsismúranna. Þá verður hann í litlu sem engu samneyti við aðra fanga enda óttast lögreglan um öryggi hans.

Breivik hleypti að minnsta kosti af 186 skotum á meðan á árás hans í Útey stóð en í valnum lágu 69 manns þegar yfir lauk. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem haldinn var í Noregi í dag þar sem lögreglan fór yfir rannsókn málsins og stöðu þess. Enn hefur ekkert verið ákveðið um hvenær eiginleg réttarhöld hefjast yfir Breivik en markmiðið er að þau geti hafist fyrir sumarbyrjun á næsta ári.

Lögreglan segist enn þeirrar skoðunar að Breivik hafi verið einn að verki og hafa engar vísbendingar borist um að hann hafi átt sér vitorðsmenn. Það er þó enn til ítarlegrar skoðunar.

Sérfræðingar hafa síðustu mánuði fínkemmt svæðið á Útey og meðal annars fundið 186 skothylki sem hleypt hafði verið af. Þá hafa fundist fjölmörg ónotuð skot en lögreglan vill ekki gefa upp fjölda þeirra að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×