Körfubolti

Elvar Már: Skotin voru að detta í dag

Boði Logason í Ljónagryfjunni skrifar
"Þetta var bara liðssigur," sagði Elvar Már Friðriksson, 17 ára leikmaður Njarðvíkur, eftir sigur á Haukum, 107 – 91 í Ljónagryfjunni í kvöld.

Elvar Már átti frábæran leik og setti nokkra mikilvæga þrista ofan í sem og að stjórna liði sínu eins og herforingi. Það var ekki að sjá leik hans að hann væri að stíga sín fyrstu skref í deild þeirra bestu. Ásamt honum var annar ungur strákur, Ólafur Helgi Jónsson, sem átti skínandi góðan leik og skoraði 18 stig.

"Þetta er annar leikurinn minn í efstu deild og skotin voru að detta í dag. Þegar þeir fóru í svæði byrjuðum við að negla þessum skotum og þau fóru niður hjá okkur. Það var jafnvægi á þessu – við vorum að skora inn í teig og líka fyrir utan teig," sagði Elvar Már eftir leikinn í kvöld.

En hvernig er að spila í efstu deild eftir að hafa einungis spilað með yngri flokkunum? "Þetta eru mikil viðbrigði en þetta er miklu skemmtilegra. Við ætlum að halda áfram á sigurbraut," sagði hann en Njarðvíkingar eru búnir að vinna fyrstu tvo leikina á þessu tímabili.

Hann segir það ekkert mál að hafa pabba sinn á hliðarlínunni en Friðrik Ragnarsson, þjálfari Njarðvíkur er faðir Elvars. "Það eru kostir og gallar við þetta," sagði hann. "En fleiri kostir samt," sagði þessi ungi efnilegi leikmaður brosandi að lokum.


Tengdar fréttir

Umfjöllun: Njarðvíkingar sýndu klærnar í Ljónagryfjunni

Njarðvík byrjar tímabilið í Iceland Express-deild karla vel en í kvöld vann liðið sigur á Haukum, 107-91. Njarðvíkingum var reyndar spáð falli úr deildinni fyrir tímabilið en þeir hafa svarað því með því að vinna fyrstu tvo leiki tímabilsins.

Friðrik: Við erum að hlaupa af okkur frumsýningarstressið

“Við spiluðum bara mjög vel í dag, sérstaklega sóknarlega. Það voru allir í banastuði og menn voru bara vel stemmdir,” sagði Friðrik Ragnarsson, þjálfari Njarðvíkinga eftir sannfærandi sigur á Haukum í Ljónagryfjunni 107 – 91 í kvöld.

Pétur: Erum að fá á okkur alltof mikið af stigum

“Við byrjuðum illa í þriðja leikhluta eftir að hafa verið undir og þeir komust fljótt í 20 stiga forskot og héldu því einhvern veginn allan leikinn,” sagði Pétur Ingvarsson, þjálfari Hauka eftir 107 – 91 tap í Ljónagryfjunni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×