Viðskipti innlent

Ríkissjóður gefur út skuldabréf fyrir einn milljarð Bandaríkjadala

Ríkissjóður Íslands gekk í dag frá samningum um útgáfu skuldabréfa að fjárhæð 1 milljarði Bandaríkjadala, jafngildi um 114 milljarða króna. Skuldabréfin bera fasta vexti og eru gefin út til 5 ára á ávöxtunarkröfunni  4,993% vöxtum.

Kjörin jafngilda 3,20% álagi á vexti á millibankamarkaði. Fjárfestar sýndu útgáfunni mikinn áhuga og nam eftirspurn um 2 milljörðum Bandaríkjadala.  Fjárfestahópurinn samanstendur aðallega af fagfjárfestum frá Bandaríkjunum og Evrópu. Skuldabréfaútgáfan kom í framhaldi af vikulangri kynningarherferð í Bandaríkjunum og Evrópu. Umsjón var í höndum Barclays Capital, Citi og UBS Investment Bank.

Á vef fjármálaráðuneytisins segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, að aðgerðin marki heilmikil tímamót fyrir Ísland.

„Ég er afar ánægður með að ríkissjóður sé aftur kominn á markað nú aðeins tveimur og hálfu ári eftir hrun. Það er sérstaklega ánægjulegt að það reyndist vera jafn mikil eftirspurn og raun ber vitni. Viðtökur fjárfesta styðja skoðun okkur á því að endurreisn efnahagslífsins sé að heppnast og horfurnar séu góðar. Með þessu er ríkið að brjóta vindinn og það ætti að auðvelda öðrum hið sama í framhaldinu."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×