Viðskipti innlent

Hægt að greiða út tæpan þriðjung upp í Icesave

Góð sjóðsstaða hjá þrotabúi Landsbankans gerir það að verkum að hægt er að greiða út 31% af kröfum úr þrotabúinu í dag.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningar Arion banka. Þar segir að peningalegar eignir (innstæður og sjóðir) hafa hlaðist hratt upp frá því að kosið var um Icesave II í janúar 2010. En sjóðsstaðan hefur aukist úr 16,5% af heildareignum í árslok 2009 upp í 31% af metnum eignum í árslok 2010. Sömuleiðis er gert ráð fyrir að 243 milljarðar kr. bætist í sjóðinn fyrir lok næsta árs og fer sama hlutfall því upp í um 51% gangi áætlanir eftir.

Þetta hefur mikla þýðingu þegar kemur að því að greiða út úr þrotabúinu, en há sjóðsstaða gerir það að verkum að hægt er að greiða u.þ.b. 31% af kröfum úr þrotabúinu eins og staðan er í dag, sem lækkar höfuðstól „skuldbindingarinnar“ að sama skapi

„Þegar verið er að meta mögulegan kostnað Íslands af Icesave er ljóst að þróun og samsetning eignasafns gamla Landsbankans (LBI) skiptir miklu máli fyrir málsaðila. Við teljum að mesta óvissan í eignasafninu snúi að útlánasafni gamla bankans sem er 29% af metnum eignum í dag. Hins vegar eru tryggar eignir metnar í dag 58% af heildareignum og vegur þar þyngst að sjóðsstaðan hefur styrkst verulega á síðustu mánuðum,“ segir í Markaðspunktunum.

Ef skoðuð er þróun eignasafnsins síðastliðin tvö ár kemur í ljós að eignirnar hafa undantekningarlaust hækkað í mati skilanefndar. Verðmæti eignasafnsins hefur aukist um 14,5%, ef leiðrétt er fyrir gengisáhrifum, þ.e. frá 22.apríl 2009 og til ársloka 2010. Segja má að óvissan í mati á eignum þrotabúsins snúi einna helst að tveimur þáttum, þ.e. annarsvegar útlánum til viðskiptamanna og fjármálastofnanna og hinsvegar eignarhluta í fyrirtækjum.

Útlán þrotabúsins eru metin á 338 milljarða kr. af bókfærðum 1195 milljörðum kr. Einkum gæti hægur efnahagsbati og hækkandi vaxtastig út í heimi haft neikvæð áhrif á þennan hluta útlánasafnsins og aukið vanskil lána. Sömuleiðis gæti batnandi efnahagsástand haft jákvæð áhrif á eignasafnið og aukið endurheimtur á lán sem nú eru í vanskilum. Þó er hluti af lánasafninu lán sem eru í vanskilum þar sem hlutabréf hafa verið sett sem trygging. Þessi hluti útlánasafnsins mun því ekki koma fram í auknum endurheimtum á útlánasafninu sjálfu. Hinsvegar þegar LBI leysir veðin til sín mun það koma fram í aukningu á liðnum ”Eignarhlutir“.

Liðurinn ”Eignarhlutir“ er metinn í dag á 117 milljarða kr. (bókfært virði 118 milljarðar kr.) en þar kemur fram áætlað verðmæti hlutabréfa þrotabúsins. Í síðasta yfirliti skilanefndar eru gefnar upplýsingar um stöðu helstu eignarhluta í breskri smávöruverslun og að hve miklu leyti þeir eru færðir inn í núverandi verðmat.

Ef miðað er við „meint“ tilboð í Iceland Foods upp á u.þ.b. 200 milljarða kr. þá er sá eignarhlutur ríflega 130 milljarða kr. virði, sem er meira en áætlað virði allra eignarhluta LBI í dag  það er 117 milljarða kr.. Því virðist nokkur möguleiki á uppfærslu á þessum lið. Í raun má segja að óvissan í þessum lið snúi fyrst og fremst að stærstu eigninni Iceland Foods og því hversu raunhæft er að gera ráð fyrir því að tilboð í félagið verði í námunda við það tilboð sem getið er hér að ofan.

Helstu eignir í smávöruverslun á Bretlandseyjum:

Iceland Foods (eignarhlutur LBI áætlaður 66,6%): Samkvæmt yfirliti skilanefndar er búið að eignfæra 52,9% af hlut LBI í Iceland Foods. Þar af var 27,6% hlutur færður til LBI í lok síðasta árs og hafði 33 milljarða kr. áhrif til hækkunar á eignunum. Afgangurinn, eða 13,7%, verður færður til LBI á fyrsta ársfjórðungi 2011 sem mun væntanlega hafa jákvæð áhrif á endurheimtuhlutfall.

Miðað við þau tilboð sem borist hafa í félagið (skv.fréttum) er allur eignarhlutur LBI í Iceland Foods ríflega 130 milljarða kr. virði.

Highland GRP Holdings Ltd (34,9% hlutur í House of Fraiser): Þessi eignarhlutur hefur ekki verið yfirtekinn af skilanefndinni. Hann gæti að einhverju leyti komið fram í liðnum „Lánum til viðskiptamanna“.

Aurum Group (eignarhlutur 66,4%): Hefur verið inni í bókum LBI frá því snemma á síðasta ári.

Corporal Ltd (63,7% hlutur í Hamleys): Þessi hlutur kom inn í bækurnar á síðasta ársfjórðungi 2010.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×