Sport

Viktor og Thelma Rut bæði inn á topp 50 á EM í fimleikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Kristmannsson og Thelma Rut Hermannsdóttir.
Viktor Kristmannsson og Thelma Rut Hermannsdóttir. Mynd/Daníel
Íslandsmeistararnir Viktor Kristmannsson og Thelma Rut Hermannsdóttir náðu bestum árangri Íslendinga á Evrópumótinu í áhaldafimleikum í Berlín í Þýskalandi sem stendur nú yfir. Íslensku keppendurnir hafa lokið keppni en alls tóku níu þátt í mótinu í ár.

Viktor Kristmannsson bar af íslensku strákunum og náði 79,600 stigum í fjölþrautinni sem skilaði honum 40. sæti. Bróður hans Róbert Kristmannsson fékk 76.850 í einkunn og endaði í 54. sæti þremur sætum á undan Ólafi Garðari Gunnarssyni. Bjarki Ásgeirsson og Jón Sigurður Gunnarsson spreyttu sig bara á hluta áhaldanna.

Thelma Rut Hermannsdóttir fékk 46,900 í einkunn og endaði í 49. sæti. Hún var sex sætum á undan Dominiqua Ölmu Belányi sem fékk 45.375 í einkunn. Thelma Rut og Dominiqua Alma náðu báðar bestum árangri í stökki en jafnvægissláin dró Dominiqu Ölmu mikið niður. Embla Jóhannesdóttir endaði í 56. sæti og Jóhanna Rakel Jónasdóttir varð í 58. sætinu.

Okkar keppendur hafa lokið keppni en nú um helgina keppa 24 efstu um fjölþrautartitilinn og 8 efstu á hverju áhaldi um Evrópumeistaratitil hvers áhalds. Keppnin núna leggur línurnar fyrir Heimsmeistaramótið í haust en þar fer fram aðalkeppnin um þátttöku á Ólympíuleikunum 2012.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×