Viðskipti innlent

Dómar á morgun gætu auðveldað Icesave málið

Dómsuppsaga fer fram á morgun í alls níu málum þar sem tekist er á um hvort heildsöluinnlán séu forgangskröfur í bú fallinna íslenskra banka. Fari svo að heildsöluinnlánin verði ekki dæmd forgangkröfur mun bú Landsbankans geta staðið undir allri Icesave skuldinni.

Fjallað er um málið í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag. Þar segir að sjö málanna eru gegn Landsbanka Íslands en heildsöluinnlán, sem flokkast með forgangskröfum hans, nema um 150 milljörðum króna. Ef niðurstaða dómstóla verður sú að slík innlán njóti ekki forgangs í búi bankans mun hann geta greitt allar aðrar forgangskröfur að öllu leyti miðað við áætlaðar endurheimtur skilanefndar hans.

Slitastjórn Landsbankans ákvað upphaflega að flokka heildsöluinnlán á meðal forgangskrafna í bú bankans. Sú ákvörðun, sem byggðist á þeirri breyttu kröfuhafaröð sem neyðarlögin sögðu til um, rataði síðar fyrir dómstóla eftir að almennir kröfuhafar stefndu búinu.

Fimm málanna eru vegna heildsöluinnlána sem bankinn safnaði í Bretlandi en tvö þeirra vegna slíkra innlána sem hann safnaði í Hollandi. Umgjörð lánanna var ekki að öllu leyti alveg eins, en viðmælendur Viðskiptablaðsins telja nánast öruggt að niðurstaðan verði samhljóma í þeim öllum. Þ.e. að öll heildsöluinnlán verði annaðhvort flokkuð sem forgangskröfur eða sem almennar kröfur.Þó er talið fullvíst að niðurstöðu málanna verði vísað til Hæstaréttar óháð því hver hún verður.

Forgangskröfur í bú Landsbankans eru 1.319 milljarðar króna og eru fastar í íslenskum krónum. Slitastjórn Landsbankans tilkynnti í upphafi marsmánaðar að hún áætli nú að 89% fáist upp í þær kröfur, eða um 1.175 milljarðar króna.

Ef heildsöluinnlánin verða dæmd sem almennar kröfur er ljóst að forgangskröfur lækka í um 1.169 milljarða króna. Standist mat slitastjórnar Landsbankans mun þrotabúið því eiga 100% upp í forgangskröfur, að því er segir í Viðskiptablaðinu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×