Viðskipti innlent

SFO rannsakar Icesave en málið ekki á borði sérstaks

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjórar Landsbankans. SFO hefur nú hafið sjálfstæða rannsókn á starfsemi Landsbankans fyrir hrun.
Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjórar Landsbankans. SFO hefur nú hafið sjálfstæða rannsókn á starfsemi Landsbankans fyrir hrun.
Sérstakur saksóknari á Íslandi hefur ekki hafið sjálfstæða rannsókn á Icesave-reikningum Landsbankans eða millifærslum af þeim, en rannsókn SFO á Landsbankanum beinist sérstaklega að millifærslum af Icesave-reikningunum stuttu áður en FME tók bankann yfir.



SFO hefur undanfarin tvö ár rannsakað starfsemi Kaupþings banka og fyrir nokkrum vikum tók sú rannsókn nýja stefnu þegar nokkrir fyrrverandi stjórnendur Kaupþings voru handteknir og yfirheyrðir í Lundúnum ásamt bræðrunum Robert og Vincent Tchenguiz.



Breska dagblaðið Daily Telegraph greinir frá því að nú hafi stofnunin hafið rannsókn á starfsemi Landsbankans fyrir hrun. Blaðið segir að stofnunin vilji greina peningafærslur tengdar Icesave-reikningunum sem áttu sér stað rétt áður en Fjármálaeftirlitið á Íslandi tók bankann yfir. Stofnunin vinni rannsóknina í samstarfi við rannsóknaraðila á Íslandi og í Lúxemborg.



Sérstakur saksóknari hefur sem kunnugt er haft meinta markaðsmisnotkun Landsbankans til rannsóknar og beinist rannsóknin m.a að lánveitingum sem notaðar voru til þess að fjárfesta í bréfum í bankanum sjálfum og hækka þannig verð þeirra.



Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði við fréttastofu í morgun að málið snerti rannsókn sem væri á vegum Serious Fraud Office og því gæti embætti hans ekki tjáð sig um málið.



Eftir því sem fréttastofa kemst næst hafa millifærslur af Icesave-reikningunum ekki verið sjálfstætt rannsóknarefni hjá embætti sérstaks saksóknara. Mikið og náið samstarf er á milli sérstaks saksóknara og SFO en bresku stofnuninni er ekki skylt að tilkynna sérstökum saksóknara um rannsóknir á málefnum íslensku bankanna og því gæti stofnunin hæglega hafið rannsóknir án vitneskju rannsakenda hér heima á Íslandi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×