Innlent

Lánin verða mjög óhagstæð ef Icesave leysist ekki

Forstjóri Landsvirkjunar segir ljóst að Icesave-deilan sé enn að tefja fjármögnun Búðarhálsvirkjunar. Ef deilan leysist ekki þá verði lánin mjög óhagstæð og styttri.

Vinna við Búðarhálsvirkjun hófst í vetrarbyrjun en fór bæði hægar og seinna af stað en áformað var þar sem engin lán fengust. Það var svo fyrst í dag að Landsvirkjun gat tilkynnt um fyrsta lánið, frá Norræna fjárfestingarbankanum, fyrir þriðjungi verksins. Peningarnir fást þó ekki fyrr en skilyrði hafa verið uppfyllt.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir mjög eðlilegt að lán séu skilyrt og að í þessu láni sé eina skilyrðið að Landsvirkjun ljúki heildarfjármögnun verksins.

Annar banki, Evrópski fjárfestingarbankinn, sem til stendur að verði aðallánveitandi, hefur hins vegar sett lausn Icesave-deilunnar sem skilyrði. Hörður segir að Landsvirkjun sé í viðræðum við fleiri en evrópska bankann. Ef það lán klárist ekki verði Landsvirkjun að hafa önnur plön.

"En það er ljóst að Icesave er að tefja þessi mál, eins og hefur ítrekað komið fram hjá okkur," segir Hörður.

-En gæti það gerst að Landsvirkjun fengi ekkert lán í Búðarháls ef Icesave leysist ekki?

"Ég tel það mjög ólíklegt að við fáum ekkert lán. Það sem gerist hins vegar er að þá verða lánin mjög óhagstæð og styttri, sem er vandamál fyrir okkur. En við munum leita allra leiða til að leysa þetta mál, hvernig sem Icesave fer," segir forstjóri Landsvirkjunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×